138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:16]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er föngulegur hópur sem situr í sölum Alþingis í kvöld. Hér komast fleiri að en vilja.

Samkvæmt samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er gert ráð fyrir því að ríkissjóður verði rekinn með 150 milljarða kr. halla á þessu ári en því miður verður hallinn a.m.k. 30 milljörðum meiri. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að upp í þennan halla verði stoppað á tveimur árum, þ.e. á árunum 2010 og 2011. Frumjöfnuði verður náð árið 2011 en þá verða um 47 milljarðar í afgang. Heildarjöfnuði verður hins vegar náð árið 2012 þegar hann verður 40 milljarðar í plús. Frumjöfnuðurinn verður þá 100 milljarðar. Þessi áætlun miðaðist við að fyrsta endurskoðun á AGS-prógramminu yrði í febrúar sl., þ.e. fyrir níu mánuðum. Nú lítur út fyrir að peningamálahluti áætlunarinnar tefjist um allt að einu ári frá því sem upphaflega var áætlað en á samt að fylgja ríkisfjármálahlutanum. Þetta gengur ekki upp. Áætlunin hefur tafist von úr viti með tilheyrandi gjaldeyrishöftum, háum vöxtum og vanburðugu bankakerfi. Að keyra ríkisfjármálahlutann miskunnarlaust áfram felur í sér dauða eins og talað hefur verið um hér í dag.

Jafnframt liggur fyrir að vöruskiptajöfnuður hefur verið stórkostlega jákvæður allt síðasta ár eða frá hruninu. Hagvöxtur er meiri en áætlað var, eða réttara sagt landsframleiðsla dregst ekki jafnmikið saman og áætlað var og atvinnuleysi er mun minna. Allt ber þetta að sama brunni. Lánsfjárþörfin er ekki jafnmikil og upphaflega var gert ráð fyrir og því er ekki jafnþung krafa á mikinn frumjöfnuð eins og gert er ráð fyrir í upphaflegu AGS-áætluninni. Það þarf því að endurskoða áætlunina og fjárlagafrumvarpið í samhengi við þessar staðreyndir. Sjálfstæðisflokkurinn mun á næstu dögum kynna tillögur sínar í efnahagsmálum þar sem tekið verður á þessum atriðum, þ.e. hvernig verður að samstilla ríkisfjármálin við peningamálahluta AGS-áætlunarinnar.

Eins og ég sagði áðan ber fjárlagafrumvarpið eins og það er í dag með sér dauða. Við sjálfstæðismenn erum ósammála því hvernig staðið er að útgjaldahliðinni og viljum aðrar áherslur en það er eins og gengur. Við viljum hlífa þeim sem minnst mega sín, standa vörð um menntakerfið og halda verklegum framkvæmdum til þess að tryggja atvinnu en auðvitað viljum við líka spara og hagræða til þess að mæta þeim mikla vanda sem er í ríkisfjármálum. Við viljum hins vegar ekki að vaxtakostnaður verði hér næststærsti útgjaldaliðurinn á komandi árum — útgjaldaliður sem á næsta ári verður stærri en heilbrigðiskerfið. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að vaxtagjöldin verði rétt um 100 milljarðar kr. en útgjöld til heilbrigðismála 93 milljarðar. Þetta er óásættanlegt.

Það sem við sjálfstæðismenn gerum kannski alvarlegustu athugasemdirnar við er tekjuhlið frumvarpsins. Vegna þjónkunar við ráðandi öfl er sjónum eingöngu beint að skattlagningu á fólk og fyrirtæki. Það má ekki sneiða að völdum hagsmunahópum. Þetta dýpkar og lengir kreppuna sem við nú stríðum við. Sú hugsun er m.a. staðfest af lánshæfismatsfyrirtækinu Moody´s, þ.e. að skera niður og hækka skatta dýpkar og lengir kreppuna. Í efnahagstillögum okkar sjálfstæðismanna eru settar fram tillögur sem bæta afkomu ríkissjóðs um 85–90 milljarða á næsta ári og það er án þess að höggva í tekjur heimila og fyrirtækja. Það sem þarf í núverandi ástandi er hugmyndaauðgi og yfirsýn. Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum.

Á dögunum voru settar fram hugmyndir um hvernig mætti leysa að hluta til vandamál heimilanna í sambandi við greiðslubyrði. Það eru ágætar tillögur sem taka tillit til margra þeirra þátta sem taka þarf tillit til þegar svona aðgerðir eru hannaðar og sennilega mun þetta verða mjög mörgum heimilum til bjargar. Síðan fer ríkisstjórnin aftur á móti fram á hinni hliðinni með skattahækkunum og tekur í burtu þann ábata sem færður er heimilunum með því að stilla greiðslubyrðina niður. Þetta er algjörlega óásættanlegt og skilur heimilin eftir í vanda.

Þá kemur að hugmyndum um orkuskatta sem mikið er búið að tala um hér í dag. Ég ætla að gefa hæstv. fjármálaráðherra það kredit, ef ég má sletta, að trúa honum þegar hann segir að þessar hugmyndir séu algjörlega ómótaðar og þau dæmi sem nefnd eru í fjárlagafrumvarpinu um skattlagningu á stóriðju verði ekki að veruleika. Ef þessar aðgerðir verða framkvæmdar er mjög einfalt að við munum hrekja frá erlenda aðila sem fjárfesta hér á Íslandi og skapa gjaldeyristekjur sem við þurfum svo mjög á að halda nú um stundir.

Ég segi aftur að við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum. Við verðum að sýna meiri hugmyndaauðgi en það. Við verðum að koma fram með aðgerðir sem breikka og stækka skattstofnana, hjálpa heimilunum og koma atvinnulífinu aftur af stað hér á Íslandi. Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum.