138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög bjart yfir þessari ræðu og margt var nú gamalkunnugt þarna, stefið. Sérstaklega þetta með að ekki megi hækka skatta. Það er sem sagt afstaða Sjálfstæðisflokksins að það megi aldrei og undir engum kringumstæðum hækka skatta. Það má bara lækka þá. Það má alltaf. Vandinn er sá að hefðum við ekki orðið fyrir þeirri ógæfu að Sjálfstæðisflokkurinn hafði forustu um að stórlækka skatta í þenslunni miðri þannig að það kom aðallega til góða hátekjufólki og fjármagnseigendum, þá þyrftum við ekki að hækka þá núna. Þá væri tekjugrundvöllur samneyslunnar sterkari, plús það að við ættum myndarlegar viðbótarinnstæður í Seðlabankanum upp á að hlaupa. En það eigum við ekki. Þannig var ráðsmennska Sjálfstæðisflokksins hér í ríkisfjármálunum.

Talað var um agaleysi í fjármálastjórn og fjárlagaeftirfylgni hjá hinu opinbera. Það er rétt. Það sér maður þegar maður fer að rýna í þessar tölur. En hvaðan tökum við það í arf? Það skyldi nú ekki einmitt vera að sú meinsemd hafi grafið um sig á undanförnum árum af því að menn töldu sig ekkert þurfa að hafa áhyggjur af slíkum hlutum. Það er alveg hárrétt. Það þarf að taka þar miklu fastar á og það er verið að gera, m.a. með því að setja nýjar reglur um yfirfærslu heimilda, um að rekstraráætlanir liggi fyrir í upphafi árs og fleira þar fram eftir götunum. Mánaðarlega eftirfylgni í staðinn fyrir ársfjórðungslega og fleira þar fram eftir götunum sem allt er verið að innleiða nú.

Svo kemur auðvitað söngurinn um að það sé bara stóriðjan sem eigi að bjarga okkur. Stóriðjan sem samt er svo aum að mati sjálfstæðismanna að alls ekki er hægt að ætlast til þess að hún leggi nokkuð til samfélagsins við erfiðleikaaðstæður. Nei, þau sjá enga aðra atvinnuuppbyggingu en stóriðju, sem samt má ekki leggja neitt af mörkum á erfiðleikatímum fyrir samfélagið. Það er óhæfa, segja sjálfstæðismenn. Þetta gengur vel upp eða hitt þó heldur.

Að sjálfsögðu væri gott að fá hér ýmsar fjárfestingar í gang, en það verður hið almenna atvinnulíf sem mun bjarga Íslandi út úr þessu en ekki einstakar slíkar stórar framkvæmdir.