138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Ég er bara hjartanlega sammála hæstv. fjármálaráðherra í því að það verður atvinnulífið sem bjargar okkur úr þessari kreppu. (BJJ: Rétt.) En það er ekki sýnilegt, hæstv. fjármálaráðherra, í þessu fjárlagafrumvarpi að það sé stefna ríkisstjórnarinnar, vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að skattleggja atvinnulífið. Og þá breytir engu hvort verið er að tala um stóriðju eða eitt eða annað. Ég nefndi ekki stóriðju á nafn í ræðu minni. Ég talaði um orku- og auðlindaskatta sem ég taldi að væru ekki af hinu góða.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að stóriðjan ein og sér bjargi Íslandi. Ég er á því að margar samgöngubætur sem hefði átt að ráðast í hefðu veitt litlum og meðalstórum fyrirtækjum tækifæri til þess að lifa. Ríkisstjórnin ætlar að taka þau af lífi.

Ég fagna því, frú forseti, sem fram kom í andsvari hæstv. fjármálaráðherra að það eigi að fara í öflugra eftirlit með rekstri ríkisins. Ég fagna því. Og ég fagna því að það verði á mánaðargrunni en ekki ársfjórðungsgrunni.

Ég var ekki í ræðu minni, frú forseti, að afsaka á nokkurn hátt þá útgjaldaþenslu sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir, né heldur það að hann hafi ekki tekið á ríkisrekstrinum eins og vera ber. Ég var einfaldlega að tala út frá eigin brjósti um það sem ég teldi að þyrfti að gera og væri aldrei brýnna en nú og það gætum við gert samhliða því að fara í heildarendurskoðun á útgjöldum ríkisins.

Þannig að ég vil fagna því sem fram kom í máli ráðherrans hvað varðar ríkisútgjöldin, en ég er ekki þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin sé að efla atvinnulíf í landinu. (Forseti hringir.) Hún er að skattleggja það til dauða.