138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni tókst í stuttri ræðu að tala meira og minna niður allar skattahækkanir og endaði svo á að ekki mætti skera niður, a.m.k. ekki á landsbyggðinni, enda stendur það ekki sérstaklega til.

Það stendur til að reyna að bæta afkomu ríkissjóðs um 95 milljarða kr. á milli ára. Það er mikið, það er alveg rétt. Það er gríðarlega erfitt verkefni en er um annað að ræða? Er ekki hallinn að stefna í 185 milljarða á þessu ári? Hann var 216 milljarðar á síðasta ári.

Hv. þingmaður nefndi réttilega vaxtakostnaðinn. Hann stefnir í 104,5 milljarða á þessu ári og um 100 milljarða á næsta ári. Sjáum við ekki öll hvað þetta þýðir? Það verður ekki undan því vikið að takast á við þetta. Við hefðum orðið að grípa til erfiðra og umfangsmikilla ráðstafana þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði aldrei verið fundinn upp. Það eru bara aðstæðurnar sem marka það. Hitt er svo annað mál og ég get tekið undir það með hv. þingmanni að slíkar áætlanir eiga alltaf að vera til endurmats. Margt bendir til þess að þegar við komumst yfir hjallana sem fram undan eru, fáum fyrstu endurskoðunina, getum dregið á fyrstu skammtana af lánunum þannig að við styrkjum gjaldeyrisvaraforðann og komumst í mun betri stöðu til að endurmeta framhaldið — þá er líklegt að við þurfum ekki að hefja öll þau lán sem áður var áætlað og það væri betur.

Ríkið hefur unnið ötullega að framgangi allra þátta stöðugleikasáttmálans svo sem viðræðum um framkvæmdir sem lífeyrissjóðirnir fjármagna. Það hefur verið staðið við samkomulag við sveitarfélögin um uppgjör húsaleigubóta að fullu o.s.frv. Í stöðugleikasáttmálanum stendur hins vegar hvergi að það eigi ekki að ástunda eðlilega stjórnsýslu og framfylgja lögum um mat á umhverfisáhrifum og stjórnsýslulögum. Það er misskilningur ef menn halda að það hafi átt að sveigja af leið í þeim efnum. Menn skulu átta sig á hvað þeir eru að tala um ef þeir gefa annað í skyn.

Varðandi undirbúning þessa frumvarps þá var það lagt hér á borðið í júnímánuði í formi skýrslu um áætlun um jöfnun í ríkisfjármálum. (Forseti hringir.) Að þeirri vinnu komu margir, líka stjórnarandstaðan í gegnum þátttöku í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda þess að stöðugleikasáttmálinn var gerður.