138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að sá sem hér stendur hefur ekki setið fundi þar sem aðilar að þessum stöðugleikasáttmála hafa komið og rætt málin fram og til baka. Hins vegar komu fimm fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins á fund þingflokks Framsóknar sl. mánudag. Þeir voru sammála um að stöðugleikasáttmálinn væri ekki svipur hjá sjón og klöguðu mjög upp á hvernig stjórnvöld hefðu hagað sínum málum. Sumir á þeim fundi vildu meina að þessi sáttmáli væri ekki pappírsins virði. Svo langt gengu menn í málflutningi á þeim bænum. Nú getur vel verið að hæstv. ráðherra greini á við þá menn en þeir komu mjög alvarlegir í bragði og fóru yfir slæma stöðu íslenskra efnahagsmála og þá sérstaklega hvernig ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir uppbyggingu atvinnutækifæra. Helguvík var sérstaklega nefnd í því samhengi.

Við megum einfaldlega ekki við því eins og sakir standa að hafna erlendri fjárfestingu sem mun skapa þúsund störf á Reykjanesi þar sem er eitt mesta atvinnuleysi á landinu í dag. Í sumum byggðarlögum þar er atvinnuleysi hátt í 20%.

Því miður höfum við ekki efni á ríkisstjórn sem hefur fordóma gagnvart ákveðinni tegund atvinnuuppbyggingar hér á landi. Sá úrskurður sem hæstv. umhverfisráðherra felldi hefur skaðað samfélagið verulega. Þegar hæstv. ráðherra kemur hingað upp og segir að ég tali gegn skattahækkunum eða þeim skattaáformum sem þar eru boðuð, þá segi ég já. Ég held verið sé að setja of miklar skattbyrðar á íslensk heimili. Það hefði verið hægt að lækka þessa skatta ef menn hefðu flýtt áformum um atvinnuuppbyggingu, m.a. á Reykjanesi, sem hefði leitt af sér hagvöxt, auknar tekjur til samfélagsins, fyrir fyrirtækin, heimilin, (Forseti hringir.) ríkissjóð og sveitarfélög (Forseti hringir.) en því miður verður töf á því.