138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um fjárlagafrumvarpið í 1. umr. Af nægu er að taka en ég ætla að reyna að einbeita mér alla vega fyrsta kastið að heilbrigðismálunum. Það er málaflokkur sem að sjálfsögðu tekur mikið til sín í okkar samfélagi og hefur alltaf gert. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram á bls. 335 að heildargjöld ráðuneytisins á næsta ári eru áætluð rúmlega 96 milljarðar, þar af dragast sértekjur af fjárhæð um 5 milljarðar sem eru 5,5% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru því rúmlega 93 milljarðar. Þetta eru auðvitað háar upphæðir en þessi málaflokkur er dýr og mun alltaf verða það af því að við viljum gera vel í heilbrigðismálunum.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég var svolítið hissa þegar ég las fjárlagafrumvarpið af því að það er svo óskýrt varðandi hvað á að gera í heilbrigðismálum. Það svarar ekki spurningum um hvernig menn ætli að taka á þeim vanda sem við stöndum núna frammi fyrir. Ég get alveg sagt að ég hef fulla samúð með stjórnvöldum í þeirri stöðu sem við erum. Auðvitað þarf að draga saman og rifa seglin en það er lágmark að þingið fái að vita skýrar hvað á að gera.

Við lestur fjárlagafrumvarpsins getur maður ekki séð hvert stefnir í heilbrigðismálunum. Að mínu mati vantar algjörlega forgangsröðun og ljóst er að það er óheppilegt að það urðu ráðherraskipti núna varðandi samfellu í þessari vinnu. Ég sé ekki betur en að sá ráðherra sem fór frá málaflokknum, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hafi skilið málaflokkinn eftir í lausu lofti varðandi hvað á að gera. Vinna fór í gang varðandi forgangsröðun en það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um hana, hvort eigi að fara eftir þeirri tillögu sem mér skilst að liggi núna á borðinu eða hvort eigi að gera eitthvað allt annað. Þetta er allt opið og mér finnst það nokkuð gagnrýnivert.

Hér á bls. 342 í kaflanum um sjúkrahús og sérhæfða sjúkrahúsaþjónustu stendur að það eigi að lækka rekstrarframlag til Landspítalans um tæplega 2 milljarða kr. og fella niður 400 millj. kr. stofnkostnað varðandi nýjan Landspítala. Síðan stendur hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Helstu aðgerðir til að ná fram lækkun útgjalda byggjast á skýrari verkaskiptingu heilbrigðisstofnana.“

Kannski er þetta markmiðið. Vonandi, en við sjáum þess alla vega ekki stað í þessu fjárlagafrumvarpi hvernig á að gera það. Ég tel að við þurfum að fá miklu betri upplýsingar inn í þingið um hvernig eigi að halda á þessu.

Nýr hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, hefur þó sagt í fjölmiðlum nýlega að hæstv. ráðherra stefni að því að koma með inn í þingið fyrir 2. umr. fjárlaga skýrari sýn á þessa forgangsröðun. Ég vona að það sé rétt því að mínu mati getum við ekki gengið frá fjárlagafrumvarpinu á þessum nótum af því að þetta er allt of óskýrt.

Ljóst er að sjúkrahúsin hér á höfuðborgarsvæðinu þurfa að skipta með sér verkum og þá tala ég um höfuðborgarsvæðið nokkuð vítt. Þar teljast að sjálfsögðu með sjúkrahúsin í Reykjanesbæ, á Selfossi og á Akranesi. Þessi sjúkrahús þurfa að skipta með sér verkum í meiri mæli en nú er gert. Síðan þarf að klára allar sameiningar um landið. Það verk er hafið og það er vel því það þarf að forgangsraða alveg upp á nýtt í þessu kerfi.

Ég átti von á því, virðulegi forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson, fráfarandi heilbrigðisráðherra, kæmi með einhverja sýn á að við mundum fara úr þessu kerfi sem við höfum í dag, þ.e. það er algjörlega opið hvert almenningur leitar varðandi sérfræðiþjónustu. Ég átti von á að það yrði minnst eitthvað á hið svokallaða danska tilvísunarkerfi sem er opið tilvísunarkerfi. Það þýðir að þeir sem fara beint til sérfræðinga borga sjálfir reikninginn en þeir sem fara til sérfræðinga í gegnum tilvísanir frá heimilislæknum borga minna en ríkið stærri hlutann.

Sú sem hér stendur hefur rætt þetta mál áður við þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Alla vega var hv. þm. Ögmundur Jónasson á þessari skoðun á sínum tíma en maður sér engin fingraför í þá átt í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta er mál sem ég tel líka að heilbrigðisnefnd þingsins gæti tekið upp af því að ég fullyrði að það er hægt að spara í heilbrigðiskerfinu án þess að minnka þjónustuna með því að vera ákveðnari í því hvernig streymið á sjúklingum er innan kerfisins. Hér er streymið of opið. Það er of opið aðgengi að sérfræðiþjónustu með niðurgreiðslum frá ríkinu. Það verður bara að segjast eins og er. Menn verða að viðurkenna það og taka á því en um þetta verður barátta því þarna munum við snerta hagsmuni ákveðinna stétta.

Ég vil gjarnan spyrja út í nýbyggingu Landspítalans, hvort það sé ekki rétt skilið að hún sé enn þá uppi á borðinu og það sé verið að ræða málið við lífeyrissjóðina. Miðað við hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út getur maður frekar átt von á því að menn hætti við þetta. Ég vil þó ekki trúa því vegna þess að manni hefur skilist á umræðunni að það ætti að reyna að fara í þá framkvæmd og ég mun styðja að það verði gert.

Ég vil líka spyrja út í aðra mikilvæga atvinnugrein, ef svo má að orði komast, sem er ferðaþjónustan. Í nýrri skýrslu sem Háskóli Íslands gerði um stöðu íslensks samfélags kemur fram að endurreisnin sem við förum í núna verði að byggja á þeim megingreinum sem gjaldeyristekjur okkar byggjast á í dag, þ.e. á stóriðjunni, sjávarútveginum og ferðaþjónustunni. Það hefur komið fram í umræðunni að taka eigi svokallað umhverfisgjald í ferðaþjónustunni. Á bls. 17 í því skjali sem lagt var fram með stefnuræðu forsætisráðherra er fjallað um hvaða mál koma inn í þingið á næstu vikum og mánuðum og þar segir að það eigi að breyta lögum. Orðalagið vakti furðu mína því það er minnst á gistinætur. Mig langar að nota tækifærið og spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað þetta þýði. Ég sá þetta ekki sjálf í fjárlagafrumvarpinu en þótt það sé nú til grundvallar þessari umræðu vil ég nýta tækifærið og spyrja um þetta. Hér stendur:

„Frumvarp til laga um komu- og gistináttaskatt. (Haust.)“

Það er þetta á að koma inn á haustþingið. Þetta kom mér svolítið á óvart. Ber að skilja þetta svo að verið sé að halda þeim möguleika opnum að taka svokallað gistináttagjald? Það var skoðað á sínum tíma en ekki náðist pólitísk samstaða um það. Ég er opin fyrir öllum hugmyndum varðandi gjaldtöku gagnvart ferðaþjónustunni af því að við munum þurfa að nýta fjármagn til þess að rannsaka í þeim geira, skipuleggja, gera áætlanir og síðan byggja upp innviðina í ferðaþjónustunni. Það er mál sem við höfum trassað allt of lengi.

Síðan langar mig líka, virðulegi forseti, að spyrja út í jafnréttismálin af því að ég sé í fjárlagafrumvarpinu að það á að skera Jafnréttisstofu niður um 10%. Þingið samþykkti fyrir nokkrum mánuðum síðan, þ.e. eftir hrun, þingsályktunartillögu um að fara ætti í sérstakt verkefni til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Það er brýnt og við erum að fara í kosningar í vor. Það er t.d. prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi 7. nóvember. Þingið samþykkti þetta eftir að hrunið var ljóst þannig að nú vill þingið fara í verkefni til þess að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum þrátt fyrir hrunið. Jafnréttisstofa átti að standa fyrir þessum verkefnum. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er honum kunnugt um hvernig það mál stendur? Er ekki rétt skilið að Jafnréttisstofa fái fjármagn til þess að standa undir þeim verkefnum sem til hennar hefur verið beint eftir að hrunið varð?