138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er líklega heppilegra fyrir hv. þingmann að ræða við heilbrigðisráðherra um þá hluti sem lúta að stefnumótun í heilbrigðismálunum og útfærslu í einstökum atriðum. Ég get þó a.m.k. svarað fyrir nýbyggingu Landspítalans af því ég er inni í því máli. Það er rétt að þau áform eru nú komin í nýjan farveg, þ.e. viðræðuhópur er kominn af stað með aðild lífeyrissjóða, spítalans og ráðuneyta sem ætlar að kanna til þrautar á næstu mánuðum eða vikum hvort það sé raunhæf og möguleg leið að lífeyrissjóðirnir ráðist í að byggja spítalann á grundvelli leigusamnings og þá yrði hönnunarkostnaður innifalinn í þeim kostnaði. Því er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum í það á fjárlögum enda er ljóst að ríkið er ekki sjálft í færum til að fara af stað og leggja út fyrir einu stykki nýjum Landspítala þótt gaman væri.

Varðandi gjaldtökuhugmyndir í ferðaþjónustu er það rétt að í skoðun eru hugmyndir um það. Nefnd er að hefja störf undir forustu ágæts fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins og forseta Ferðafélagsins við að skoða möguleikana á því að koma upp framtíðartekjustofni fyrir uppbyggingu í þjóðgörðum, úrbætur á ferðamannastöðum og markaðssetningu ferðaþjónustunnar með þeim möguleikum sem þekktir eru t.d. erlendis frá. Það getur verið visst gjald á gistinótt, farseðlagjald eða aðrir slíkir hlutir enda heyrist manni almennt að menn telji vænlegri leið að búa þannig til slíkan tekjustofn en að farið verði t.d. að selja inn á einstaka fjölsótta ferðamannastaði.

Það er ekkert launungarmál og best að vera hreinskilinn með það að okkar hugsun er sú að ríkið og greinin deili með sér þessum tekjustofni í byrjun en hann verði síðan alfarið að framtíðartekjustofni þessara aðila. Ég leyfi mér að minna á að þrátt fyrir að hart sé í ári hefur verið ákveðið að setja viðbótarfjármagn (Forseti hringir.) í ferðamarkaðsátak í vetrarferðamennsku til að reyna að halda uppi umsvifum í ferðaþjónustunni í vetur.