138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ég held að enginn vafi sé á að ferðaþjónustan er ein okkar allra álitlegasta vaxtargrein eins og hún hefur reyndar verið undanfarna áratugi. Hún er sú grein íslensks atvinnulífs sem hefur vaxið hraðast, skilar miklum gjaldeyristekjum og verðmætum inn í þjóðarbúskapinn og dreifir afrakstri sínum mjög víða þannig að mjög margir njóta góðs af. Það styrkir rekstur ýmissa samgangna og innviða hjá okkur sjálfum sem við þurfum á að halda vegna okkar sjálfra, burt séð frá ferðamönnunum.

Gangi þau áform eftir eða áætlanir að við fáum innan ekki mjög margra ára allt að einni millj. ferðamanna á ári er augljóst að það þarf að undirbúa vel. Ég held að menn ráði ekki við þá þróun nema til komi skipulagður tekjustofn sem renni til uppbyggingar og undirbúnings til þess að gera það bærilegt fyrir umhverfi okkar og verja náttúruna fyrir óhóflegu álagi að fá slíkar tekjur og hægt sé að fara í þær ráðstafanir.

Auðvitað er ferðaþjónustan ekki hrifin af gistináttagjaldi. Enginn vill fá gjöldin á sig en allir vilja fá peningana. Það er nú bara þannig. Ég held þó að menn verði að finna leiðir til þess að ná landi með þetta og að sjálfsögðu eiga samtök ferðaþjónustunnar aðild að þeirri nefnd sem nú er að hefja störf og skoðar þetta mál.

Af því hv. þingmaður spurði um Jafnréttisstofu er það sjálfsagt því miður þannig að Jafnréttisstofu er ætlað að taka á sig sambærilega aðlögun og öðrum slíkum rekstri. Allar stjórnsýslustofnanir eiga að mæta 10% aðlögunarkröfu. Það gengur jafnt yfir alla með þó þeirri reglu að undirstöðuþáttum félags- og heilbrigðismálanna sé hlíft, þar er um 5% kröfu að ræða og menntunarþátturinn er 7%.

Ég minni síðan hv. þingmann á að í fjárlagafrumvarpinu er í fyrsta sinn í sögunni kafli um kynjaða hagstjórn. Það var því gerð tilraun til að setja þau gleraugu á nefið þegar þetta frumvarp var undirbúið.