138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að minnst er á kynjaða hagstjórn í fjárlagafrumvarpinu. Að vísu er þar sagt að alla aðila þurfi að mennta mjög mikið þannig að þetta mun nú frestast. Ég varð því fyrir svolitlum vonbrigðum með tóninn varðandi kynjuðu hagstjórnina en látum það vera. Vonandi kemst hún á sem fyrst. Það er alla vega viðleitni í þá átt í þessu fjárlagafrumvarpi, ég skal viðurkenna það.

Jafnréttisstofa þarf að spara eins og aðrar stofnanir, maður áttar sig á því. Að mínu mati er þó alveg skýrt að Jafnréttisstofa þarf að fara í þetta verkefni og ég held að þar sé vilji fyrir hendi. Þingið er nýbúið að samþykkja að það verði farið í verkefni til þess að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Næstu sveitarstjórnarkosningar eru að bresta á þannig að það er annaðhvort að vaða í þetta verkefni núna eða ekki. Ég tel því að þrátt fyrir sparnað hjá Jafnréttisstofu þurfi hún að finna svigrúm til þess að fara í þetta verkefni. Hún getur ekki hunsað vilja þingsins í því.

Varðandi ferðaþjónustuna er það rétt að enginn vill fá gjöld á sig. Ég held þó að nú séu augu æ fleiri að opnast gagnvart því að það verður að fá inn tekjustofn til að fara í þessa grundvallarvinnu, þ.e. að gera áætlun um hvernig við ætlum að taka á móti ferðamönnum, hvert þeir eiga að fara, hvernig við ætlum að dreifa þeim og annað, því það stefnir í að við fáum yfir milljón ferðamenn hingað árið 2016. Það stefnir hraðbyri í það. Hingað komu 560.000 manns í fyrra ef við tökum skemmtiferðaskipin með.

Við verðum að fara í grundvallarvinnu, það er númer eitt. Númer tvö er síðan að bregðast við þessum innviðum, þ.e. hvar eiga stígar að vera, pallar, salerni o.s.frv. Nú þegar sjáum við að á fjölsóttum stað eins og Hakinu á Þingvöllum eru dæmi um að á sömu mínútunni séu þar 1.800 manns og hvað eru salernin mörg? Þau eru sjö. Þetta mun kosta okkur peninga (Forseti hringir.) en við verðum að vaða í þessi mál. Því fyrr, því betra.