138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:46]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að eftir óstjórn efnahagsmála hér á Íslandi undanfarin ár stöndum við frammi fyrir gríðarlegu vandamáli, við þurfum að auka tekjur og lækka gjöld. Mín skoðun er sú að þeir sem hafa breiðustu bökin eigi að leggja mest til við að standa á bak við félags-, mennta- og heilbrigðiskerfið í landinu.

Ég er ósammála hv. þingmanni með að endurskipulagning samspils tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts verði letjandi fyrir atvinnulífið en um leið deilum við þeirri skoðun að skattapólitíkin þurfi að hafa örvandi áhrif á atvinnulífið. Ég tel að skattafsláttur sem mun virkja þá fjármuni sem liggja núna ónýttir inni í bankakerfinu geti orðið til þess.