138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þingmönnum er fremur naumt skammtaður tíminn í þessari 1. umr. fjárlaga og þess vegna verður maður að velja nokkuð úr þætti til að fjalla um í þessu sambandi. Ég ætla í upphafi að halda áfram þeirri umræðu sem við tókum þátt í, ég og hv. þm. Magnús Orri Schram sem var síðastur á mælendaskrá á undan mér, varðandi skattapólitíkina. Ég vildi sagt hafa, til þess að taka af allan vafa, að vissulega kann að vera rétt að endurskoða ákveðna þætti varðandi fjármagnstekjuskatt og framkvæmd hans. Ég vara hins vegar við hugmyndum um að hækka þann skatt svo einhverju nemi af þeim sökum sem ég vísaði til hér áðan, vegna þess að fjármagnstekjuskattur sem leggst á viðskiptagerninga og hærri fjármagnstekjuskattur getur einfaldlega dregið úr hvatanum til þess að gera slíka gerninga. Það getur latt til fjárfestinga og latt menn til ýmissa viðskipta sem ella væru hagkvæm. Þess vegna held ég að menn verði að fara afar varlega í þessu þó að við getum auðvitað rætt þetta nánar þegar fram eru komnar skýrt skilgreindar hugmyndir um þetta af hálfu fjármálaráðherra.

Ég held að menn verði að hafa í huga í þessu sambandi að það má lagfæra ýmsa þætti. Menn hafa bent á og það eru dæmi um að einstaklingar sleppi við að greiða útsvar til sveitarfélaga og greiði einungis fjármagnstekjuskatt. Það er útfærsluatriði sem ég vildi gjarnan taka þátt í að finna lausn á. Ég held að við getum öll verið sammála um að það sé agnúi á kerfinu sem hægt er að skoða. Ég vara hins vegar við því að fara út í mjög róttækar breytingar á kerfinu með það fyrir augum að hækka fjármagnstekjuskattinn svo einhverju nemi vegna þess að ég held að það muni einfaldlega verða til þess að skattstofninn minnki, að þær fjármagnstekjur sem menn ætla sér að skattleggja verði þá einfaldlega minni. Skattstofninn dragist saman þannig að þetta verði ekki til þess að auka tekjur ríkisins eins og menn hafa í huga.

Þetta leiðir hugann að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins almennt sem ég ætla svo sem ekki að fjalla um í smáatriðum. Við vitum og það hefur komið fram ítarlega við þessa umræðu að það á eftir að fylla inn í gríðarlega margar eyður varðandi hvernig á að ná inn þeim tekjum sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Ég verð reyndar að segja að það kemur mér á óvart að fjárlagafrumvarp sé lagt fram með slíkum eyðum því að sá vandi sem við er að glíma í ríkisfjármálunum kemur okkur ekki á óvart núna á síðustu vikunum. Allt þetta ár hefur legið fyrir að það yrði erfitt að glíma við fjárlagagerð ársins 2010 og menn hafa bæði í ráðuneytum og annars staðar á vettvangi embættismanna og stjórnmálamanna haft allt þetta ár til þess að velta því fyrir sér hvernig ætti að klára þessi mál. Þess vegna kemur mér á óvart að fjárlagafrumvarpið skuli vera svona óútfært að þessu leyti og hvað það er í rauninni erfitt að festa hönd á þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hefur um tekjuöflunarleiðir. Mér finnst í raun og veru að við höfum litlu meiri upplýsingar um áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum núna en við höfðum í vor, fyrir u.þ.b. fimm mánuðum. Ég sé ekki að það sé búið að móta frekar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um aukna skattlagningu sem glitti í þegar á vordögum. Mér finnst einnig hvað útgjaldahliðina varðar að þar séu hlutirnir líka óljósir.

Ég hef vissulega samúð og skilning á því að það vandasama verk sem fyrir liggur varðandi fjárlagagerðina geri það að verkum að þetta, undirbúningur fjárlagafrumvarps, hefur án efa verið erfiðari en oftast áður. Engu að síður held ég að við verðum að hafa í huga að sá vandi í ríkisfjármálum sem við blasir hefur blasað við í heilt ár, alveg frá því að ríkisstjórn í nánast sömu mynd og nú tók við 1. febrúar. Ekkert óvænt áfall eða óvæntir atburðir á síðustu vikum eða einum, tveimur, þremur mánuðum hefur gert það að verkum að vandinn fyrirsjáanlegi er svona mikill, þetta hefur legið fyrir allt þetta ár. Þess vegna, þó að ég ítreki að fjármálaráðherra og hans fólk, ráðherrar í ríkisstjórn og embættismenn í ráðuneytum hafa staðið frammi fyrir erfiðu verki, er ekki eins og það verk hafi allt í einu dottið af himnum ofan núna upp á síðkastið.

Í þessari stuttu ræðu ætla ég ekki að fara út í einstaka liði að öðru leyti en því að ég nefni það sem fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra fyrr í dag og vil ítreka sjónarmið sem komu fram af minni hálfu og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að það þurfi að sýna sérstaka aðgæslu þegar kemur að löggæslumálum og lögreglunni. Þar gert ráð fyrir, eins og dómsmálaráðherra lýsti því, 8,2% hagræðingu þegar búið er að taka tillit til aukaframlags til eflingar almennri löggæslu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég held að á erfiðleika- og umrótstímum sé mjög mikilvægt að standa vörð um löggæsluna. Hætta er á að lögbrotum fari fjölgandi og ákveðin merki eru um það, lögbrot af ýmsu tagi og afbrot. Það er ekki ofan á bætandi þá óvissu sem ríkir hjá einstaklingum og fjölskyldum að fólk þurfi líka að óttast um öryggi sitt. Ég legg því áherslu á að við vinnu í fjárlaganefnd verði sérstaklega hugað að þessu.

Ég get ekki annað en undrast að 10% almenn hagræðingarkrafa sé sett á lögreglumál þegar ýmsir aðrir málaflokkar, sem vissulega eru líka mikilvægir eins og á sviði velferðarþjónustu, kennslu og slíkt, eru teknir út — að löggæslan eða lögreglumál séu ekki þar með eins og fyrri ríkisstjórn, eða eigum við að segja þarsíðasta ríkisstjórn, gerði ráð fyrir í upphafi þessa árs þegar lægri eða minni hagræðingarkrafa var gerð til lögreglumála en almennt var gert. Þá var litið svo á að þjónusta lögreglu væri með sambærilegum hætti og önnur grunnþjónusta sem snýr beint að borgurunum eins og á sviði heilbrigðismála, velferðarmála og kennslu í skólum. Þess vegna undrast ég svolítið að lögreglan skuli hafa dottið úr þessum lægri hagræðingarflokki, ef við einföldum hlutina dálítið, og farið upp í efri flokkinn. Mér finnst það ekki rétt forgangsröðun.

Að lokum vildi ég segja, hæstv. forseti, að ríkisútgjöldin hafa vissulega vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Ég ætla ekkert að fara út í lýsingar á því eða umfjöllun um það að öðru leyti en því að ef við horfum nokkur ár til baka sjáum við að við bjuggum í býsna góðu samfélagi að okkar mati og við getum skrúfað ákveðna þætti til baka. Ef við förum yfir þá fitu sem víða hefur safnast á ríkiskerfið er ábyggilega víða hægt að skera niður. Ég held þess vegna að í vinnu fjárlaganefndar verði hægt að beita hnífnum víða í þessum efnum. Við verðum auðvitað að gera það á grundvelli skýrrar forgangsröðunar og það krefst mikillar vinnu af hálfu fjárlaganefndar og annarra hv. þingmanna en ég tek undir þau sjónarmið sem ítrekað hafa komið fram af hálfu margra (Forseti hringir.) þingmanna hér í dag að flatur niðurskurður er óskaplega ómarkviss og erfiður. Þess vegna (Forseti hringir.) skora ég á hv. fjárlaganefnd að leggja þeim mun meiri vinnu í að fara ofan í verkefnin til þess að ná fram hagræðingu og sparnaði þar sem það er hægt (Forseti hringir.) en hlífa því sem mikilvægast er fyrir borgarana.