138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lok umræðunnar þakka fyrir hana sem hefur yfirleitt verið mjög góð og málefnaleg. Ég þakka líka þann vilja til samstarfs um þetta erfiða verkefni sem fjölmargir þingmenn, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, hafa lýst yfir fyrir sitt leyti. Þó að hér hafi að sjálfsögðu verið eins og við má búast skiptar skoðanir um ýmislegt hafa þó allir horfst í augu við verkefnið og ég held að það sé vænlegt að málið sigli nú inn í fjárlaganefnd í slíkum anda.

Ef ég má aðeins nota tækifærið og bregðast við málflutningi síðasta ræðumanns, til að vera ekki að lengja þetta með andsvörum sérstaklega, þá vil ég segja við hv. þingmann að ég vona að hann hafi ekki verið að láta að því liggja að við höfum legið í leti í fjármálaráðuneytinu og þess vegna væri frumvarpið ekki fullbúið að öllu leyti eða allar hugmyndir um tekjuöflun ekki útfærðar. Það er nú ekki beinlínis þannig en aðstæðurnar hafa verið nokkuð sérstakar, bæði varð sumarið öðruvísi hjá okkur stjórnmálamönnunum en ýmsir höfðu ætlað og svo er ekki því að neita að gríðarlegt viðbótarvinnuálag hefur náttúrlega lagst á stjórnkerfið, ráðuneytin og ekki síst fjármálaráðuneytið vegna þeirra aðstæðna sem hér hafa verið uppi, ærin hrein viðbótarverkefni sem þar hafa komið. Hefði það þó verið í sjálfu sér alveg nóg að glíma við ríkisfjármálin og það að koma saman fjárlagafrumvarpi við þær hrikalegu aðstæður sem nú eru þó ekki hefði allt hitt bæst við. Þess vegna hefur mér ekki fundist það mjög sanngjarnt þegar sumir ónefndir aðilar hafa verið að koma heim sólbrenndir og sællegir úr löngum sumarfríum erlendis og hafa uppi skammir yfir okkur hinum sem höfum verið upp á hvern einasta dag að vinna að þessum verkefnum í sumar og haust. Ekki meira um það.

Hv. þingmaður er ekki hrifinn af því að hækka fjármagnstekjuskatt, þó svo hann sé á Íslandi einhver sá lægsti sem þekkist á byggðu bóli. Nú hefur hann lækkað verulega sem tekjustofn, ekki er það vegna þess að hann hafi hækkað. Það eru þá einhver önnur öfl á ferðinni en þau sem hv. þingmaður og skoðanasystkin hans tala stundum um og þessi stórkostlega formúla sem hv. þm. Pétur Blöndal er mjög vel að sér í, kúrfan, hvað hún nú heitir, sem gengur út á að tekjurnar aukist jafnt og þétt eftir því sem prósenturnar séu lækkaðar.

Þetta hefur mér alltaf fundist einhver skemmtilegasta hagfræðikenning undir sólinni. Ég hef stundum leyft mér að spyrja: Eru þær þá ekki orðnar óendanlegar þegar prósentan er núll? Þetta er náttúrlega ekki alveg svona einfalt. En að sjálfsögðu eru þarna einhver efri og neðri mörk sem skynsamlegt er að hafa í huga og það tel ég að sé gert í frumvarpinu þegar það er skoðað og mælt á einhverja hlutlæga mælikvarða eins og t.d.: Hvert verður skattstigið, tekjuöflunin hjá ríkinu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á næsta ári ef áform um tekjuöflun ganga í grófum dráttum eftir? Jú, hlutfallið fer þá í 27,1% af vergri landsframleiðslu, það er nákvæmlega sama hlutfall og það var 2002.

Ekki er verið að tala um að fara með tekjuöflun ríkisins upp úr einhverjum þekktum mörkum en verið er að reyna að lyfta þeim aðeins frá þeim botni sem efnahagsaðstæðurnar annars skapa, eins og við sjáum m.a. á því að þessar tekjur hrynja niður í 23,8%, ef ég man rétt, af vergri landsframleiðslu á þessu ári. Þá er það einfaldlega orðinn svo veikur tekjugrunnur undir samneyslunni að annaðhvort verður meira og minna að skrúfa fyrir hana eða sætta sig við alveg gríðarlegan halla á ríkissjóði, og hvorugt er gerlegt.

Ég held að það hafi verið í nokkuð góðri blöndu í dag rætt um og kvartað yfir annars vegar niðurskurði og hins vegar tekjuöflun. Það færir mér heim sanninn um að sennilega sé blandan í blönduðu aðgerðunum nokkuð góð, enda er hún í grófum dráttum í samræmi við það sem að var stefnt í aðgerðum sem gripið var til innan ársins í ár. Þeir sem kvarta yfir því að ekki hafi verið tekið á málum mættu minnast þess að farið var í ráðstafanir sem munu minnka halla ríkissjóðs á þessu ári um yfir 20 milljarða kr., á miðju fjárlagaári. Það er erfitt en það var samt gert, þannig að ekki hefur þessi ríkisstjórn og sá sem hér talar kveinkað sér undan því að takast á við þetta og hefjast handa, enda hefði annað verið óskynsamlegt. Eftir á að hyggja hefði auðvitað þurft að gera miklu meira í þessum efnum við síðustu áramót þegar fyrirsjáanlegt var í hvað stefndi með afkomuhorfur ríkissjóðs, þó að það lægi að vísu vissulega ekki alveg fyrir að myndin yrði svona dökk að öllu leyti, það viðurkenni ég. Menn sáu þá t.d. ekki fyrir eða gerðu sér vonir um minna atvinnuleysi, spáðu þá 5,7% í staðinn fyrir að það endi kannski í rúmum 8%.

Aðlögunin núna er, eins og margoft hefur komið fram, upp á 3,2% af vergri landsframleiðslu á tekjuhlið og 3,7% af vergri landsframleiðslu á útgjaldahlið. Hvort tveggja er mjög mikið svo maður tali nú ekki um pakkann í heild, að við erum að lækka hallann á frumjöfnuði ríkissjóðs um nærri 7% af vergri landsframleiðslu. Það er alveg gríðarlega stórt átak enda ætlum við að láta það skila okkur um 95 milljarða kr. afkomubata hjá ríkissjóði.

Það er rétt sem komið hefur fram að óvissan er að sjálfsögðu mikil. Hún er það m.a. vegna þess að við vitum ekki alveg hvernig okkur gengur næstu nokkrar vikurnar, einn til einn og hálfan mánuðinn. Það mun skipta mjög miklu máli, að við komumst vel á veg með hluti sem hafa tafist og reynst okkur erfiðir á næstu vikum þannig að myndin verði orðin skýrari og staðan vænlegri í lok nóvember eða byrjun desember þegar dregur að afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Þá verða forsendurnar að sjálfsögðu endurmetnar. Þá mun m.a. skipta máli hvort við höfum náð þeim hlutum fram sem hafa tafist; eins og endurskoðun áætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, fengið gjaldeyrislán, styrkt gjaldeyrisvaraforðann þannig að horfur og forsendur fyrir þróun gengis, verðbólgu og vaxta séu þá orðnar vænlegri en þær blasa við núna. Þetta skiptir að sjálfsögðu allt saman miklu máli.

Í rauninni er það svo að við leggjum kannski meira undir í þessu frumvarpi með einni breytu en lengi áður og það er verðbólgan. Það hvernig frumvarpið mun hafa síðan, verði það að lögum, áhrif á kaupmátt og útkomu ýmissa aðila verður mjög háð því að við náum tökum á verðbólgunni. Því hraðar sem hún lækkar og því lægri sem hún verður þeim mun minna munu hinar aðhaldssömu verðlagsforsendur frumvarpsins bíta í formi skerðinga bóta og kaupmáttar. Að þessu leyti til má segja að staðan minni um margt á aðstæðurnar sem voru uppi þegar þjóðarsáttin var gerð á sínum tíma.

Út á hvað gekk þjóðarsáttin? Hún gekk út á það að menn fóru í aðgerðir fyrir fram, tóku á sig byrðar, afsöluðu sér hækkunum, launahækkunum, bændur afurðaverðhækkunum o.s.frv., og veðjuðu á að ná verðbólgunni hratt niður og það tókst. Það er því mjög mikið lagt undir núna að við náum árangri, miklum árangri á næstu mánuðum í að lækka verðbólgu, vexti, helst styrkja gengi krónunnar og þá mun horfa hér mun vænlegar strax á fyrri hluta næsta árs. En til þess þarf að ryðja vissum hindrunum úr vegi og ég held að allir hér í salnum viti hver sú stærsta, fyrirferðarmesta og erfiðasta er.

Tekjuöflunarfrumvörpin munu koma fram á næstu vikum eins fljótt og okkur vinnst. Það er ekki verið að reyna að fela það að sú vinna er nú í gangi. Það varð jú að forgangsraða verkefnunum sem hlóðust upp og taka dag frá degi, unnið var dag og nótt. Allar helgar í september var vakt í fjármálaráðuneytinu við að klára fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagafrumvarpið sem rætt verður í næstu viku. Núna er þungi vinnunnar lagður í að klára nauðsynleg tekjuöflunarfrumvörp. Þetta er reyndar alveg með hefðbundnum hætti. Venjan er sú að þau fylgja fjárlagafrumvarpinu vikurnar á eftir inn í þing þar sem útfærðar eru þær breytingar í sköttum og eftir atvikum í öðrum lögum sem þurfa að fylgja frumvarpinu og lögtaka þarf til að leggja grundvöll þess. Ég bind því vonir við að þetta verði allt saman komið á sinn stað um mánaðamótin október/nóvember og helst ekki seinna en það eða þá allra fyrstu dagana í nóvember.

Eins og áður sagði ræðum við fjáraukalagafrumvarp í næstu viku og þá er fjárlaganefnd ekkert að vanbúnaði að hefja vinnu sína við bæði þessi frumvörp, fjáraukann og fjárlagafrumvarpið. Það verður ærinn starfi, það er alveg ljóst að mikið mun mæða á nefndinni. Þetta eru óvenjulegar og afbrigðilegar aðstæður. Sömuleiðis mun það eiga við um ekki síst efnahags- og skattanefnd, sem fær væntanlega innan fárra vikna viðamikil frumvörp á sitt borð sem nú er verið að leggja lokahönd á.

Að lokum, frú forseti, vænti ég að sjálfsögðu góðs samstarfs við þingið og viðkomandi nefndir þess. Það er ákaflega mikilvægt að menn leggi saman kraftana og allar góðar hugmyndir og tillögur eru vel þegnar og sjálfsagt mál að skoða þær. Ég hef enga fordóma gagnvart því nema síður sé. Þetta eru ekki aðstæður stórfelldra hugmyndafræðilegra sigra. Ég segi við vini mína í Sjálfstæðisflokknum: Mér finnst að við eigum svolítið að leggja til hliðar þessar fræðilegustu klisjur okkar á báða bóga. Við getum tekið þær skylmingar við aðrar aðstæður. Núna er ekki tíminn fyrir hina stóru hugmyndafræðilegu sigra, við erum með afar þröngar aðstæður sem marka okkur skorður. Við verðum að nálgast þessa hluti af raunsæi og reyna að gera þetta á þann hátt sem helst er viðráðanlegt og mögulegt og svigrúmið er lítið.

Reyndar segir mér svo hugur að sennilega væri svipuð blanda hér á ferð tekjuöflunar og niðurskurðar hjá hvaða ríkisstjórn sem væri vegna þess að það eru einfaldlega aðstæðurnar sem setja því skorður hvað hægt er að gera. Sjálfsagt væru leiðirnar ólíkar hvernig farið yrði í þá hluti og menn mundu vilja leggja á skatta svona en ekki hinsegin, en að takast verði á við aðstæður eins og þær eru. Mér finnst svolítið gæta þess misskilnings í umræðunni að við getum á einhvern hátt komið okkur undan því að koma fjárlagafrumvarpinu saman og takast á við hlutina í ljósi þess sem orðið er út á væntingar um að þetta eigi að gerast einhvern veginn öðruvísi. Menn tala um að breikka skattstofna og auka þannig tekjur. Já, en það gerist inni í framtíðinni, núið er núna. (Gripið fram í: Leggja grunninn.) Alveg hárrétt, og við skulum ræða það. Menn munu líka sjá þess stað hér. Væntanlega flyt ég innan fárra daga á þingi frumvarp um ívilnandi aðgerðir í þágu nýsköpunar í atvinnulífinu til að reyna að hlúa að þeim sprotum sem þar eru að vaxa þó að þröngt sé í ári. Við erum vissulega líka að hugsa um slíka hluti og ragar ekkert upp á það.

Frú forseti. Ég endurtek þær óskir mínar að við náum að vinna þetta vel saman. Ekki mun af veita og ærinn er starfinn. Það verður örugglega með allra erfiðasta móti að loka þessu í desembermánuði. Þrýstingurinn verður mikill. Á að draga úr sársaukanum og bæta aðeins í þar? Við svona aðeins heyrðum glitta á það í dag hjá hinum og þessum, en við verðum að vera raunsæ og aðhaldssöm og láta þetta ekki leka út úr höndunum á okkur ef við ætlum okkur að takast á við þetta af þeirri alvöru sem óumflýjanleg er. Allt annað væri hreint ábyrgðarleysi en að takast af festu á við þetta núna. Það væri bara að kaupa sér tímabundin pólitísk þægindi, hlífa sér við sársaukanum á kostnað framtíðarinnar. Þannig hafa því miður okkar aðstæður þróast að við eigum engan annan kost en að takast á við þetta af mikilli festu.

Kosturinn er þá líka sá, ef við gerum það og náum stóru skrefi núna strax á fyrri hluta þessa tímabils í nauðsynlegri aðlögun, verður eftirleikurinn léttari. Þá verður upphleðsla vaxtakostnaðarins minni og eftirleikurinn auðveldari. En að sjálfsögðu þurfum við og ætlum að reyna að gera þetta þannig að við dreifum byrðunum með sanngjörnum hætti, hlífum því mikilvægasta í undirstöðuvelferðarþjónustu okkar við niðurskurði og vel að merkja, af því að hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi lögregluna fær hún að vissu leyti sérmeðferð því að hún tekur vissulega á sig þessa aðlögunarkröfu en dómsmálaráðherra fær í sínar hendur óskiptan pott með þó nokkrum fjármunum til að mæta sérstaklega þörfum almennu löggæslunnar. Hún er því höfð sérstaklega í huga í þeim efnum.

Að svo mæltu, frú forseti, þakka ég fyrir umræðuna og endurtek tillögu mína um að vísa málinu að henni lokinni til fjárlaganefndar.