138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

uppgjör á eignum Landsbankans og Icesave.

[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þau tíðindi hafa nú spurst út að búið sé að finna leið til að endurreisa Landsbankann og því ber að fagna að búið sé að koma á samkomulagi milli kröfuhafanna og íslenskra stjórnvalda, gamla og nýja bankans og skilanefndarinnar um hvernig uppgjör eigna muni eiga sér stað. Á sama tíma spyrjast út fregnir af nýju mati á virði eignasafns Landsbankans sem hefur tengingu við Icesave-málið og þá umræðu sem hér er í vændum á þinginu um stöðu þess máls. Mig langar til að bera undir fjármálaráðherra þrjár spurningar:

1. Er ríkisstjórnin með það í huga að leiða til lykta viðræður við Breta og Hollendinga vegna Icesave án þess að haft verði samráð um mögulega útfærslu við þingið? Nú er ríkisstjórnin í fyrsta lagi búin að gera samning við Breta og Hollendinga sem hún gat ekki fengið samþykktan á þinginu. Síðan gerðu stjórnarflokkarnir breytingar á ríkisábyrgðinni sem ekki fékkst samþykkt af Bretum og Hollendingum. Við viljum ekki fara þriðja rúntinn í þessu ósamkomulagi í Icesave-málinu sem setur málið enn og aftur í uppnám. Færi ekki betur á því að áætlanir stjórnvalda um lok Icesave-málsins í samstarfi við Breta og Hollendinga yrðu kunngerðar þótt ekki væri nema fyrir utanríkismálanefnd á þinginu?

2. Telur hæstv. ráðherra að nýtt virðismat á eignum Landsbankans hafi einhverja þýðingu fyrir skuldbindingar ríkisins vegna Icesave-málsins? Hvaða þýðingu hefur það fyrir þær skuldbindingar sem verið hafa til umfjöllunar að nú meti menn það svo að 90% fáist upp í Icesave-skuldirnar? Í mínum huga er það ljóst að meginhluti skuldbindingar ríkisins liggur í vaxtabyrðinni. (Forseti hringir.)

3. Þá vil ég spyrja ráðherrann að því hvernig standi á því að skuldbinding Nýja Landsbankans við þann gamla er í erlendri mynt?