138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

uppgjör á eignum Landsbankans og Icesave.

[13:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef á tilfinningunni að hv. þingmaður eigi eitthvað erfitt með að gleðjast yfir góðum fréttum. Ég hélt að það hlytu að vera góðar fréttir að nú meti menn horfur og þróun og þetta eignasafn þannig að hið almenna eignasafn, óháð uppgjöri úr Nýja Landsbankanum yfir í þann gamla, er nú metið 90 milljörðum kr. verðmætara en það var snemmsumars. Af þessum rúmum 130 milljörðum sem eignasafnið er núna metið upp á er 41 milljarður vegna hærra uppgjörs frá Nýja Landsbankanum yfir í þann gamla en 90 milljarðar eru vegna jákvæðrar þróunar og horfa almennt varðandi eignasafn Landsbankans. Haldi slík þróun áfram er augljóst hvað það þýðir og menn hljóta að gleðjast yfir því að málin þróist í þessa átt en ekki hina. Þetta gæti líka þýtt að aðstæður yrðu fyrr hagstæðari en áður var talið jafnvel til þess að selja eitthvað af þessum eignum á fullu verði og borga mun fyrr og hraðar inn á Icesave-reikninginn (Forseti hringir.) með tilheyrandi minni vaxtakostnaði. Gangi þetta allt eftir þannig að reikningurinn verði til muna lægri en heimsendaspár margra gengu löngum út á vona ég að hver einasti maður í þessum sal, að meðtöldum þeim hv. þm. Bjarni Benediktssyni (Forseti hringir.) og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, geti glaðst.