138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

úrskurður ráðherra um suðvesturlínu.

[13:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra um suðvesturlínur er afar umdeild, svo ekki sé meira sagt, og jafnvel ólögmæt líka. Staðan er þessi: Í fyrsta lagi er talið að brotið hafi verið á lögbundnum andmælarétti Norðuráls með úrskurði ráðherra.

Í öðru lagi er ráðherra sögð brjóta lög um opinbera stjórnsýslu vegna þess að kærunum var ekki vísað frá þar sem þær voru of seint til komnar samkvæmt lögum um opinbera stjórnsýslu.

Í þriðja lagi er talið að ráðherra hafi einnig brotið lög um umhverfismat þar sem ráðherra fór þremur mánuðum fram úr lögbundnum fresti til þess að úrskurða í þessu máli. Því til viðbótar setur ráðherrann með ákvörðun sinni ekki aðeins stöðugleikasáttmála ríkisstjórnar í uppnám heldur brýtur hún hann þar sem segir berum orðum að rutt verði úr vegi öllum hindrunum gagnvart þessu ágæta verkefni í Helguvík, en það gerir ráðherra að sjálfsögðu ekki með þessum umdeilda úrskurði.

Hæstv. ráðherra sagðist hafa tekið þessa ákvörðun í anda góðrar stjórnsýslu og að hún skildi ekki að nokkur maður við stöðugleikasáttmálaborðið gæti haldið að hún bryti með henni lög. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða lög telur ráðherrann sig hafa brotið með því að láta úrskurð fyrrverandi umhverfisráðherra standa óbreyttan? Og í ljósi þess sem ég hef rakið hér, þ.e. þau lög sem talið er að hæstv. umhverfisráðherra hafi brotið með úrskurði sínum, er þá betra að brjóta sum lög en önnur? Finnst ráðherra allt í lagi að brjóta lög um opinbera stjórnsýslu, að brjóta lög um umhverfismat og að brjóta á fyrirtæki um lögbundinn andmælarétt með því að taka svona ákvörðun, að ég tali nú ekki um (Forseti hringir.) að setja stöðugleikasáttmálann og efnahagslífið á heilu landsvæði í algjört uppnám?