138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurheimtur á innstæðum Icesave-reikninganna.

[14:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt að miðla upplýsingum um þetta mál. Í lögunum frá því í sumar eru ákvæði þar um, ef ég man rétt, um árlega skýrslugjöf ráðherra til Alþingis um framvindu málsins. Og m.a. með samstarfi við skilanefndina og mögulegum samningum sem þar verða gerðir er ætlunin að leggja grunn að því að stjórnvöld hafi á hverjum tíma aðgang að öllum upplýsingum og geti sinnt þessari upplýsingaskyldu til þingsins.

Ef svo skyldi fara að málið eigi eftir að koma aftur fyrir verða bestu fáanlegar upplýsingar að sjálfsögðu reiddar fram með því. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn gleðjast yfir því að bregðast með einhverjum öðrum hætti við þeim fregnum en í það gæti hæglega stefnt að endanleg fullnusta málsins kalli aftur að aðkomu Alþingis að því.