138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að allt er þetta vandasamt og staðan þröng. En afkomutölur ríkissjóðs tala sínu máli og geigvænleg skuldasöfnun á síðasta ári og þessu, vaxtakostnaður upp á á annað hundrað milljarða kr. sem þetta fjáraukalagafrumvarp birtir okkur, segir sína sögu. Það eru mjög skýr skilaboð til okkar allra um að við höldum ekki lengi áfram á þessari braut. Við förum að grípa til viðamikilla aðgerða.

Varðandi spurningu sem hv. þingmaður bar fram í sínu fyrra andsvari um þá ráðstöfun að fjármagna nýju bankana með ríkisskuldabréfum í stað fyrri hugmynda um að ráðstafa til þess eignum sem ríkið yfirtók frá Seðlabankanum, kom það að hluta til fram í framsöguræðu minni. Þær eignir hafa því miður reynst ákaflega veikar og ekki í þannig ásigkomulagi að hægt sé að segja að það sé greið leið að nota þær í þessu skyni. Bæði er það nú að þær eru því miður sennilega mun minna virði og eins að er það flókið mál að vinna úr þeim og sortera þær í viðfangsefni sem ríkissjóður og Seðlabankinn þurfa að vinna saman á komandi mánuðum og missirum. Verið er að koma því í skipulegan farveg. Það er talið mun betra fyrir bankana að þetta séu markaðshæf ríkisskuldabréf sem gefin eru út. Það styrkir stöðu þeirra og þannig held ég að það sé mun farsælli lausn en eldri og óraunhæfar hugmyndir.

Það er í sjálfu sér gleðiefni ef við horfumst í augu við minni fjárbindingu ríkissjóðs í endurreisn bankakerfisins eða fjármálakerfisins, ef við komumst af með minni töku gjaldeyrislána en áður var áformað. Allt er þetta til bóta og gefur vissar vonir um að við getum endurmetið efnahagsáætlanirnar og skoðað t.d. þætti eins og líklegan vaxtakostnað á komandi árum, að það verði til lækkunar fremur en hækkunar.

Að lokum um atvinnuleysið og tekjustofnana. Jú, atvinnuleysi mælist í þessum mánuði 7,2% sem er til muna lægra (Forseti hringir.) en svartsýnar spár í vetur og vor gengu út á að það yrði. Ég leyfði mér að segja það áðan að ég væri svolítið bjartsýnni inni í mér en t.d. þjóðhagsspáin (Forseti hringir.) á að það verði kannski ekki alveg það háa atvinnuleysi á næsta ári sem þar er spáð.