138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var alls ekki að reyna að gera lítið úr málinu með gamansemi í lokin. Tíminn var einfaldlega búinn og það er út af fyrir sig staðreynd að tónlistarhúsið er að rísa þarna við höfnina.

Það mál er þannig vaxið að samningar um það milli ríkis og borgar voru löngu frágengnir, klappaðir og klárir í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hv. þingmaður sat þá í ríkisstjórn, (PHB: Ég sat ekki í ríkisstjórn.) nei, sat þá á þingi og var stuðningsmaður ríkisstjórnar og hafði ágætan aðgang að upplýsingum þar. (Gripið fram í.) Það er hárrétt. Ég veit og man að hv. þingmaður var gagnrýninn á þetta og það voru reyndar fleiri fjárlaganefndarmenn og margir þingmenn sem töldu að þarna væri verið að fara af stað með stórt mál sem þingið hefði sem slíkt kannski ekki tekið hreina og klára prinsippafstöðu til heldur færi þetta af stað á grundvelli einhverrar heimildar. Samningurinn lá þó fyrir, skuldbindandi samningur um greiðslur ríkisins og borgarinnar til þessa verkefnis 35 eða 40 ár fram í tímann sem væntanlega hefjast þegar byggingin verður afhent. Fyrirtækið Austurhöfn stendur núna fyrir framkvæmdunum.

Mat aðila í vetur var að það mundi afstýra enn þá meira tjóni og hörmungum að klára verkefnið en hætta í miðjum klíðum þar sem það var statt. Við skulum ekki gleyma því að á þeim tímapunkti áttu sér stað umtalsverðar afskriftir á áföllnum kostnaði þannig að verkið lagði af stað í raun og veru á nýjum grunni.

Það er síðan sjálfstætt mál og til athugunar hvernig fara megi almennt með skuldbindingar af þessu tagi. Við getum tekið þar mögulegt risastórt dæmi sem kann að vera í farvatninu sem er bygging nýs Landspítala og framtíðarskuldbindingar ríkisins á grundvelli samninga sem þar kunna að koma til. Að sjálfsögðu er eðlilegt að horfa til þessa hvort sem það á að bókfærast ár frá ári samkvæmt þrengsta skilningi fjárreiðulaga eða hvort t.d. slíkir hlutir eiga að birtast í töflum eða yfirlitum sem fylgi þannig að menn geti alltaf áttað sig á heildarmyndinni. Ýmsar leiðir eru mögulegar í þeim efnum og ég er sammála hv. þingmanni um (Forseti hringir.) að markmiðið á að sjálfsögðu að vera að allt slíkt liggi fyrir og sé uppi á borðinu.