138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einfaldasta svarið við fyrirspurn frá hv. þm. Ólöfu Nordal er að segja að við ætlum að skoða saman í fjárlaganefndinni með hvaða hætti eftirlitshlutverkinu verður best sinnt. Ég hef ákveðnar hugmyndir um það en ég hef ekki endanlegar lausnir.

Ég ætla að taka sérstaklega fram, af því að hér var minnst á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að hann hefur ekki kíkt yfir öxlina á okkur sérstaklega til að fylgjast með hvernig við högum eftirliti nema af því að fyrrverandi ríkisstjórn hafði óskað eftir því við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að hann kæmi með skoðun eða álit á því hvernig ætti að haga fjárlagagerð, skipulagi og eftirliti. Við fengum skýrslu og skýringar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ósk ríkisstjórnarinnar sem kom fram í febrúar, eða raunar í janúar. Þar komu fram mjög gagnlegar upplýsingar sem voru mjög í samræmi við það sem OECD hafði líka komið fram með í sambandi við fjárlagagerðina. Það var í meginatriðum að þingið ákveddi forsendur, megináherslur og hvað ætti að fara af stað með, framkvæmdarvaldið ynni vinnuna en síðan tæki þingið við og færi yfir hvort unnið hefði verið í samræmi við áætlunina.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það er alltaf tvíbent hvað maður hefur af óráðstöfuðum heimildum. Dæmi eru um það í fjárlögum að menn hafi óráðstafaðar heimildir, t.d. varðandi launaþróun, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að skipta því út á stofnanir hver launahækkunin á að vera vegna þess að oft er ekki búið að semja um launahækkanirnar á markaðnum. Þá setja menn púllíu sem er þá hámarkið sem viðkomandi ríkisstjórn eða framkvæmdarvald hefur til þess að semja um og getur þá ráðstafað þeim peningum og skipt út á stofnanir jafnóðum. Þetta hefur líka verið varðandi gengisþróun að í staðinn fyrir að áætla á einstakar stofnanir er haldið eftir púllíu til þess að skipta út á stofnanir. Það er kannski í þessum liðum sem ég er að tala um að geti verið heimildir til að gera leiðréttingar þar sem er meira og minna (Forseti hringir.) af ófyrirsjáanlegum hlutum sem þarf að leiðrétta innan ársins.