138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög gagnlegt við umræðu af þessu tagi að ræða dálítið um hvernig framkvæmd fjárlaga eigi að vera háttað. Ég verð að segja alveg eins og er að sem nýliði í fjárlaganefnd, þótt ég hafi setið á þingi í tvö ár þar á undan, er nokkuð athyglisvert að koma inn í nefndina og fylgjast með því hvernig þessum hlutum hefur verið háttað um langt árabil.

Mér finnst t.d. áhugavert að velta fyrir mér hvernig grunnur fjárlagagerðarinnar almennt er. Það er dálítið sérkennilegt og ég veit að nýir þingmenn taka ábyggilega eftir því að það er enginn samanburður á milli ára í fjárlagafrumvarpinu, það eru aldrei neinar tölur frá fyrra ári til að bera sig saman við. Þetta veldur talsverðum erfiðleikum þegar menn bera saman hlutina og hafa ekki í höfðinu hverja einustu tölu. Þarna finnst mér að mætti gera breytingar á. Jafnframt hefur það nokkuð verið gagnrýnt að fjárlagafrumvarpið eða fjárlögin eins og þau eru afgreidd frá þinginu eru í raun og veru það seint á ferðinni af ýmsum ástæðum að sveitarfélögin hafa jafnan gengið frá sinni fjárhagsáætlun töluvert langt á undan og þurfa jafnvel að geta í eyðurnar með hvernig ríkið ráðstafar sínum hlutum til að geta lokið sinni fjárhagsgerð. Ég hygg að við séum flest sammála um að við þurfum að stöðugt að þróa fjárlagavinnuna áfram. Mín skoðun er sú að við þær hamfarir sem hér hafa orðið séu ekki síst tilefni til að reyna að átta sig á því hvort ekki megi gera betur, hvort þarna séu hlutir sem við getum lagað og reyna þá að nota tækifærið og gera það. Ég er viss um að við viljum öll leggja okkar á vogarskálarnar til að svo megi verða vegna þess að það er mikilvægt fyrir þingmenn að hafa skýra mynd af því ástandi sem er í ríkisfjármálum á hverjum tíma og að þeir geti glöggvað sig á því nokkuð hratt og vel en þurfi ekki að leita leiðbeininga eða setja hlutina í annað samhengi vegna þess að þeir eru kannski settir fram á frekar flókinn hátt, alla vega við fyrstu sýn.

Þess vegna hef ég velt dálítið fyrir mér hvort nú sé ástæða til að brydda aftur upp á því sem alltaf kemur upp öðru hvoru, svokallaðri núllstillingu fjárlagagerðar. Þá er hugsunin sú að með reglulegu millibili sé ástæða til að líta á ríkisreksturinn í heild sinni og velta fyrir sér hvernig rétt sé að haga honum. Auðvitað tekur þetta verkefni langan tíma og það er ekki hægt að umbylta frumvarpi til fjárlaga í skyndingu enda er ég almennt á móti því að menn umbylti hlutunum án þess að hafa hugsað þá mjög rækilega. Ég held samt sem áður að þetta sé alveg eins og þegar heimili lendir í miklum vanda þá verður það oft til þess að heimilið þarf að skoða sinn grunn algerlega, hvar er hægt að skera af, hvað er hægt að gera og hverju á síðan að bæta við til að lenda ekki aftur í sömu ógöngunum.

Mér finnst þess vegna ástæða fyrir okkur, ríkisstjórnina og fjármálaráðuneytið að velta fyrir okkur hvort það sé ástæða til að skoða hlutina með öðrum augum en gert hefur verið. Þá er ég ekki síst að velta því fyrir mér að við förum nánar í hvert meginviðfangsefni ríkisins sé. Ég hygg að við séum mörg hver sammála um að við viljum að ákveðnar grunnstoðir séu tryggar og traustar en síðan getum við deilt um hversu langt eigi að ganga á ýmsum öðrum sviðum í ríkisrekstri. Um það verður alltaf ákveðin pólitísk deila og það er kannski heldur ekki óeðlilegt að fjárlagafrumvarp taki mið af því að þar koma ólíkir pólitískir hagsmunir til kasta. Mér finnst sjálfri að fjárlagafrumvarp eigi gjarnan að endurspegla þau pólitísku viðhorf sem í landinu eru, þ.e. að þarna eigi þess að sjást stað hvernig menn huga að tekjuöflun og öðrum þáttum í ríkisrekstrinum. Ég held þess vegna að við þetta tilefni sé alls ekki fjarri lagi að velta ýmsu slíku fyrir sér, hvort hægt sé að skoða fjárlagagerðina út frá öðru sjónarmiði.

Mér finnst t.d. þegar fjáraukalagafrumvarpið er hér til umræðu, eins og ég hygg reyndar að hafi verið oft áður, svolítið sérstakt að ræða það vegna þess að þetta er mál sem fer síðan inn í nefnd. Ég býst við að þetta frumvarp muni taka einhverjum breytingum þar eins og gengur en meginsjónarmiðið er að við getum með sem gleggstum hætti gert okkur fljótt grein fyrir því hver staða ríkisins er. Það yrði að vera sá útgangspunktur sem við göngum út frá þegar við hugsum okkur hvernig við högum þessum hlutum í framtíðinni. Ef menn hafa séð einhverja agnúa þar á fyrri árum ber að leiðrétta það og laga eins og kostur er.

Annars langar mig að slá á aðra strengi í þessari umræðu en gert hefur verið fram að þessu. Í fyrsta lagi langar mig að koma aðeins inn á þau tíðindi sem urðu núna um helgina með endurreisn Landsbankans ef svo má að orði komast. Ég tek undir það sem fram hefur komið að það er mjög gleðilegt að farið sé að sjá fyrir endann á endurreisn bankanna. Ég vil auðvitað líka taka fram að mér þykir afar slæmt hvað þetta hefur dregist mikið en ef niðurstaðan verður þó sú að tveir af þessum bönkum verða ekki í eigu ríkisins nema að litlu leyti finnst mér það gott. Mér finnst alveg nóg fyrir íslenska ríkið að vera með Landsbankann ef það verður svo að hann verði að mestu leyti í eigu ríkisins. Af því tilefni finnst mér þó ástæða til að velta fyrir sér hvort þau sjónarmið sem uppi hafa verið um Bankasýsluna þurfi að ganga jafnlangt og við gerðum ráð fyrir með þeim lögum sem urðu að veruleika í sumar. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir sínum sjónarmiðum hvað varðar Bankasýsluna og að það sé nauðsynlegt og ærið verkefni fyrir hana að sjá um Landsbankann. Ég vil samt halda því sjónarmiði á lofti að það er ástæða fyrir ríkisstjórnina að draga eins mikið úr yfirbyggingu vegna þessara hluta eins og kostur er. Vissulega er mjög til bóta að þarna sé að mestu leyti bara um einn banka að ræða og þá vaknar sú spurning hvort hægt sé að trimma eitthvað niður þessa stofnun, Bankasýslu ríkisins.

Það sem stendur kannski upp úr og rak mig hingað upp í dag og hefur verið rauði þráðurinn í því sem við höfum rætt undanfarið er að við höfum því miður ekki komist nógu langt enn þá. Nú er ár liðið frá því að hrunið varð og nú er þriðja ríkisstjórnin að völdum þótt sú ríkisstjórn sem nú situr hafi í raun og veru setið frá því í febrúar. Hlutirnir hafa því miður gengið afar hægt og mér finnst, ég veit ekki hvað öðrum hv. þingmönnum finnst um það, eins og við séum enn þá að leita að þessu gólfi sem við ætlum að standa á, að við séum ekki enn þá búin að átta okkur á því hvaða leið er best að fara. Ég get ekki betur séð en þau tíðindi sem við höfum séð í fjárlagafrumvarpinu og annars staðar bendi til þess að við séum enn að reyna að hnýta nauðsynlega enda til að geta síðan hafið endurreisn landsins.

Við heyrum greinilega í aðilum vinnumarkaðarins vegna áhyggna þeirra út af stöðugleikasáttmálanum sem því miður er kominn í mikinn vanda. Við heyrum miklar áhyggjuraddir úr atvinnulífinu um að það vanti enn þá töluvert súrefni til að koma því í gang. Allt þetta verðum við að taka mjög alvarlega og velta fyrir okkur hvað veldur því að okkur hefur ekki tekist betur til en þetta. Þegar fjárlagafrumvarpið ber með sér, vil ég meina, að við ofmetum að mörgu leyti þá möguleika sem við höfum til að leggja á eða ná tekjum úr þessari skattstefnu held ég að það sé ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af því á hvaða leið við erum eða hversu langt við erum komin á þeirri leið sem ákveðið hefur verið að fara.

Í forsendum fjárlagagerðarinnar kemur enn fremur fram að gert sé ráð fyrir fjárfestingum af ýmsum toga og það er auðvitað mikilvægt og skiptir verulegu máli fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs að svigrúm skapist til fjárfestinga. Þá er ég að tala um fjárfestingar í víðum skilningi. Við megum ekki gleyma því að við þurfum að skapa tækifæri fyrir almennar erlendar fjárfestingar á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Ég held að til að greiða af skuldum í erlendri mynt þurfum við að skapa gjaldeyri. Þetta er ekki flókið og við verðum að leita leiða til að gera það. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir því að hagvöxtur á árunum 2011–2012 verði drifinn af slíkum fjárfestingum en mér finnst því miður að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar undanfarið veki ekki endilega bjartsýni um að af þessu geti orðið. Um leið og við reynum að ná tökum á ríkisfjármálunum á þessum stutta tíma eru þarna forsendur sem geta verið á afar veikum grunni byggðar.

Ef það verður svo, og ég skal vera sú fyrsta til að vonast til að svo verði ekki, að kaupmáttur dragist saman hátt í 12% á næsta ári og ef að atvinnuleysistölur halda áfram að hækka eins og spáð hefur verið er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að við náum ekki þeim tekjum inn sem við þurfum á að halda til að laga halla ríkissjóðs. Ég held að það blasi við og því hlýtur að skipta verulegu máli fyrir okkur í allri þessari vinnu í haust að reyna að koma fótum undir atvinnulífið og veita súrefni og blóðflæði út í allt þjóðfélagið.

Þegar við Íslendingar ákváðum á síðasta ári að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var það náttúrlega gert vegna þess að það var algerlega bráðnauðsynlegt fyrir okkur að fá heilbrigðisvottorð frá aðila um að hér væri á einhverju að byggja. Það er óhætt að segja að álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins strax á síðasta ári um íslenskt þjóðfélag var mjög gott. Þar kom berlega fram að innviðir þjóðfélagsins eru sterkir og við höfum fulla burði til að koma okkur sæmilega út úr þessari kreppu enda höfum við ýmsa möguleika, sterka innviði í sjávarútvegi og aðrar auðlindir sem við höfum nýtt. Allt er þetta þó sagt með þeim formerkjum að við síðan gerum það sem þarf til að koma hlutunum aftur af stað. Þess vegna held ég að það hafi verið mjög mikilvægt að fá þetta heilbrigðisvottorð á síðasta ári. Ég hygg og er sannfærð um að án þess hefði verið mun erfiðara fyrir okkur að fá nauðsynlegar lánafyrirgreiðslur og slíkt frá útlöndum.

Samt sem áður erum við stödd hér og af ýmsum ástæðum. Við höfum talað um Icesave-málið fram og aftur í þinginu og ekki þarf að rifja upp hversu lengi fjárlaganefndin dvaldi við það mál í sumar. En það er svo margt annað sem þarf líka að huga að þegar kemur að endurreisninni, t.d. að það sé samhengi á milli þess sem ákveðið er og hvert menn síðan stefna. Ef menn halda að eina leiðin til að koma sér úr þessu vandamáli sé að leggja á með skattheimtu held ég að mönnum muni ekki takast það.

Ég nefndi í stuttu andsvari áðan að þær neyslutölur sem koma frá Íslendingum — og við skulum athuga að við Íslendingar höfum töluvert mikla aðlögunarhæfni og við erum fljót að breyta um hegðunarmynstur. Nú hefur kreditkortavelta dregist gríðarlega mikið saman en það er samt mjög mikilvægt fyrir þjóðfélagið við þessar aðstæður að neyslan fari í gang. Nú erum við ekki að sækjast eftir öllum þeim hæðum sem við vorum í en þetta má ekki vera annaðhvort í ökkla eða eyra. Það verður að koma atvinnulífinu af stað og við verðum að hafa frið á vinnumarkaði til að halda áfram. Ef fram heldur sem horfir að stöðugleikasáttmálinn fari út um gluggann og ófriður skapist á vinnumarkaði býð ég ekki í það hvernig ástandið verður seinna í vetur. Þess vegna finnst mér svo gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórnin einbeiti sér að því að koma þeim hlutum öllum af stað. Þetta kristallast í því að eftir heilt ár — af ýmsum ástæðum og auðvitað hefur þetta Icesave-mál enn og aftur mikið með það að gera og sú óbilgirni sem við höfum orðið fyrir þar — höfum við samt því miður ekki náð nógu miklum árangri. Samt vil ég taka það fram út af því sem varð um helgina varðandi endurreisn bankanna, að það var skref í rétta átt en við höfum ekki náð nógu langt. Mér finnst enn þá að ákveðin óvissa sé um á hvaða vegferð við erum, t.d. gagnvart erlendri lántöku.

Um helgina var hér mikið sjónarspil gagnvart lántöku í Noregi. Enginn hefur enn getað sagt mér hversu mikið af lánum Íslendingar þurfa að taka. Við vitum það ekki enn þá. Í fjárlagafrumvarpinu höfum við 100 milljarða í vaxtagreiðslum af lánum sem við höfum ekki dregið á. Við höfum ekki enn svarað þeirri spurningu hvort við þurfum á öllum þessum peningum að halda og ég held að við Íslendingar verðum núna öll að fara að koma okkur í þann farveg að við getum byggt þetta samfélag upp aftur. (Forseti hringir.) Ég held að allir á þinginu séu á því að það megi ekki dragast lengur.