138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að telja mig bjartsýnan í málflutningi mínum. Ég ætla ekkert að skorast undan því að ég hafi verið það. Ég vil gjarnan vera það um leið og ég vil vera raunsær og horfast í augu við þá miklu erfiðleika sem enn er við að glíma. Ég held að ég hafi ekki orðað það svo að vel hafi tekist að koma hér öllu í lag. (Gripið fram í.) Nei, það sagði ég ekki, ég sagði að það hefði að mínu mati tekist vel að fleyta samfélaginu í gegnum þessa erfiðleika, halda utan um þá, á þeim erfiða tíma sem liðinn er frá hruninu fyrir ári. Hafi ég sagt það sem ég held að ég hafi ekki sagt, að hér væru allir hlutir komnir í lag, dreg ég það til baka, enda er það fjarri öllu lagi. Við vitum öll að við mikinn vanda er að glíma og kannski vita fáir menn undir sólinni betur en ég hve margt er enn ógert á Íslandi. Vandamálin eru umtalsverð og mikil.

Já, ég sagði eitthvað í þeim dúr að við þyrftum að rjúfa kyrrstöðuna í ákveðnum efnum. Það vita allir, það sjá allir. Það hljóta allir að horfast í augu við það af hverju ákveðnir hlutir hafa ekki gengið fram eins og við vonuðumst til, af hverju þeim hefur seinkað, af hverju hér hafa ekki skapast þær batnandi horfur í sambandi við verðbólguþróun, vaxtastig, aðgang okkar að alþjóðlegum fjármálamarkaði og fleiri slíka hluti sem við þurfum að koma í lag. Ég þekki það mjög vel eftir ótal samtöl við banka og fjármálastofnanir, matsfyrirtæki og fleiri slíka aðila að við þurfum á því að halda að rjúfa þá biðstöðu sem hér hefur verið um nokkurra mánaða skeið.

Mikil breyting verður á andrúmsloftinu þegar þau skilaboð munu koma frá Íslandi að nú séum við komin af stað með þessa hluti á nýjan leik og að héðan fari að berast góðar fréttir. Það er almennt bara beðið eftir því að það gerist og þá spái ég því að við munum eiga betri anda að mæta í samskiptum okkar við t.d. fjárfestingarbanka og aðra slíka aðila sem eru fyrirtækjum og opinberum aðilum mikilvæg. Það er ekki lengi hægt að búa við það frost í (Forseti hringir.) samskiptum okkar við slíka aðila sem hér hefur verið.