138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Já, ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið, virðulegi forseti. Hann svaraði reyndar ekki öllum mínum spurningum. Til að mynda get ég tekið undir með honum að það hefði verið æskilegt að ríkið hefði tekið myndarlegar á aðhaldi og slíkum hlutum í upphafi árs 2009, sérstaklega í því ljósi ef menn hefðu áttað sig á því að á árunum 2007–2008 jukust útgjöld ríkisins gríðarlega. Ef ég man rétt voru ráðuneyti sem heyrðu þá undir Samfylkinguna að auka útgjöld sín um allt 38%. Það er svolítið sérkennilegt að taka þessa tölu upp og bera hana saman við þær niðurskurðarprósentutölur sem við erum að tala um í dag. Þess vegna held ég það hafi verið nauðsynlegt á hverjum tíma að taka fastar á fjármálunum. Mér fannst á hv. þingmönnum sem ræddu þetta mál í dag og eins ráðherra, að það væri kannski æskilegt að menn breyttu hreinlega verklaginu. Við værum allt of seint með þessi gögn í höndunum og þau væru því miður ekki færð til dagsins í dag á hverjum tíma, við værum að skoða aftur í tímann en þá væri skaðinn skeður og lítið hægt að bregðast við.

Varðandi atvinnumálin og nauðsyn þess að vera samstiga og afgreiða mál með réttum hætti get ég tekið sem dæmi, af því að það hangir svo margt á spýtunni, að það að staðfesta ekki aðalskipulag hjá einu sveitarfélagi í átta mánuði þótt kannski væri eðlilegast að þeir væru tveir — hér á ég við Flóahrepp, þar geta menn ekki einu sinni byggt fjós eða hesthús nema með sérstöku leyfi ráðherra til þess að fara að þessum fínu lögum og góðri stjórnsýslu. Það er auðvitað afar bagalegt að svo sé komið fyrir stjórnsýslunni að öll atvinnuuppbygging (Forseti hringir.) í einu sveitarfélagi sé stöðvuð vegna pólitískrar afstöðu (Forseti hringir.) ráðherra.