138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir ágætisframsögu varðandi þetta frumvarp. Það vekur óneitanlega upp margar spurningar hvernig hæstv. ráðherra líði við að leggja það fram miðað við skoðanir hans á Evrópusambandsmálum sem hafa verið mikið í umræðunni, sérstaklega hér í sumar.

Hæstv. ráðherra minntist á það í svari sínu við andsvar hv. þm. Ólafar Nordal að það stæði til að þýða spurningalistana sem landbúnaðarráðuneytið er að svara yfir á íslensku þannig að allir geti skilið hvað þar fer fram, sem er ágætt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig fer með kostnaðinn varðandi þá þýðingarvinnu? Lendir hann á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu? Eða nær hæstv. ráðherra að kría hann út úr öðrum fjárlagalið? Hver er sá kostnaður? Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um þetta.

Jafnframt langar mig að fjalla aðeins um eftirlitsiðnaðinn hinn mikla sem fylgir óneitanlega öllum reglugerðum sem við innleiðum hér á Íslandi og tengjast Evrópusambandinu og leiðast þaðan. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hefur veitt m.a. mjólkurstöðvum starfsleyfi og haft eftirlit með þeim nema þegar um er að ræða fyrirtæki sem framleiða til útflutnings. Miðað við þær breytingar sem hér eru lagðar fram færast þessi verkefni til Matvælastofnunar. Eykst kostnaðarauki framleiðandans við þessa tilfærslu verkefnisins? Hefur verið reiknað út hvort verið sé að einfalda kerfið eða flækja það að mati ráðherrans? Nú erum við ekki milljónaþjóð. Við erum Íslendingar. Við erum hér á löggjafarsamkundu Íslendinga og hljótum að ætla (Forseti hringir.) að hafa okkar kerfi einfalt.