138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágætt svar hjá hæstv. ráðherra, nema hann svaraði hvorugri spurningunni sem ég lagði fyrir hann. Það væri því ágætt ef hann kæmi aftur upp í seinna andsvari og nýtti tímann til þess að svara spurningum mínum.

Mig langar að bæta einni spurningu við ef hæstv. ráðherra gæti hlustað á orð mín. Nú talaði hann um að hann teldi það lýðræðislegt og gagnsætt að þýða spurningarnar yfir á íslensku og þess vegna væri það gert í hans ráðuneyti. Er það þá mat hæstv. ráðherra að aðrir ráðherrar sem gera ekki slíkt hið sama viðhafi ekki gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð? Þar sem það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar almennt að gera þetta, telur hann þá að vinnubrögðin varðandi þennan þátt Evrópusambandsaðildarinnar, sem er hinn stóri draumur Samfylkingarinnar, séu þá einfaldlega ekki gagnsæ og ekki lýðræðisleg?

Það væri ágætt að fá svör við þessu, sem og spurningunum sem ég spurði að áðan, þ.e. hver er kostnaðurinn við þýðingarvinnuna og af hvaða fjárlagalið er hann greiddur? Er þetta greitt af fjármunum ráðuneytis hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða tekið af einhverjum fjárlagalið?

Eins varðandi þessar tilfærslur á eftirlitinu frá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga yfir til Matvælastofnunar. Fela þær í sér meiri kostnað fyrir þá aðila sem þurfa að sækjast eftir þessari þjónustu og þessum leyfum? Hæstv. ráðherra mætti athuga hvort það hafi verið reiknað út, hvort það hafi verið kannað og liggi fyrir?

Jafnframt væri mjög áhugavert að vita, þar sem hæstv. ráðherra talar um þessar breytingar sem hann gerir nú á þessu frumvarpi frá því sem áður hefur verið, hvaða ráðgjöf hann hafi fengið og þá hjá hvaða aðilum. Hann fullyrðir að það verði ekki gerðar athugasemdir við þessar breytingar af hálfu Brussel-valdsins, svo ég taki mér það orð í munn.