138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[17:41]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við ágæta ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bæta en árétta þó nokkur atriði í því samhengi.

Frumvarpið er í samræmi við efnisákvæði ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti og hráum eggjum og varnir gegn þeim helst og er ekki afnumið. Það sama gildir um óhreinsuð skinn og húðir, alidýraáburð og rotmassa. Innflutningsbanni er viðhaldið með það að markmiði að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna. Þá er ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna okkar sem reynslan hefur sýnt að geta verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum sem litlum skaða valda í öðrum löndum. Um þetta leyfi ég mér, frú forseti, að vísa sérstaklega til umsagna sem liggja fyrir frá Margréti Guðnadóttur, fyrrverandi prófessor. Það eru ítarlegar umsagnir um þá hættu sem landi okkar er búin með innflutningi á hráu kjöti ef við förum ekki varlega gagnvart sjúkdómum sem herja á Evrópu en ekki hér, sérstaklega þegar maður lítur til Suður- og Austur-Evrópu.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að matvælaöryggi okkar er með því besta sem gerist í heiminum. Við stöndum framar þeim Norðurlöndum sem standa best, Noregi og Svíþjóð, ef nokkuð er. Ég nefni sérstaklega kampýlóbakter, sem er landlægt í Evrópu, og salmonellu. Eins og Margrét Guðnadóttir hefur bent á er þjóðhættulegt fyrir eylandið okkar Ísland að heimila innflutning á hráu kjöti. Það stenst ekki að við innleiðum reglur frá EES eða ESB sem slaka á þessu ágæta öryggi okkar. Það á að njóta vafans. Við megum aldrei innleiða reglur sem ógna heilsu lýðs og dýra og við höfum til þess heimildir í 13. gr. EES-samningsins.

Bann við innflutningi á hráu kjöti tryggir fleira. Það tryggir fæðuöryggi, bæði beint og óbeint, að við séum sjálfum okkur næg um matvælaframleiðslu. Það tryggir einnig störf bænda og störf í matvælaiðnaði og það er umhverfisvænt.

Á bls. 37 í greinargerð með frumvarpinu er vikið að efnislegum breytingum frá fyrri frumvörpum sem lögð voru fram á 135., 136. og 137. löggjafarþingi. Hráa kjötið var heimilað í upphaflegum frumvörpum tveggja fyrri ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum barist gegn því og ég er afar stoltur af þeirri baráttu og þeirri niðurstöðu sem nú er fengin í málið. Þessar breytingar eru raktar þar nákvæmlega og ég leyfi mér að vísa til þeirra. Fyrst nú er afdráttarlaust er tekið á hráa kjötinu.

Við framlagningu frumvarpsins núna hefur verið gerð ein breyting sem varðar hrá egg, ósótthreinsuð hrá skinn og húðir. Ég vil líka leyfa mér, með leyfi frú forseta, að lesa upp úr á bls. 45 í greinargerðinni, þar sem segir:

„Ákvæðið skilgreinir örugg matvæli. Matvæli sem ekki eru örugg skal ekki markaðssetja. Matvæli skulu ekki teljast örugg ef þau eru álitin heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. 2.–4. mgr. ákvæðisins gefur nánari leiðbeiningar um það hvað má telja örugg, heilsuspillandi eða óneysluhæf matvæli.“

Síðan kemur fram að Ísland geti sótt um viðbótartryggingar gagnvart salmonellu og muni gera það. Hitt er svo annað mál að Evrópusambandið hefur engar reglur um kampýlóbakter, engin reglusetning hefur farið fram um kampýlóbakter sem er með skæðari veirum sem orsaka matvælaeitrun. Þar eru reglur um salmonelluvarnir en ekki um kampýlóbakter sem við höfum náð afar miklum árangri með, eins og komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna.

13. gr. EES-samningsins heimilar fullkomlega að koma í veg fyrir innflutning á kjöti sem getur skapað hættu á matareitrun hér. Danir lentu í því sumarið 2008 að flytja inn matvöru frá Frakklandi og víðar með þeim afleiðingum að heiftarleg matareitrun upphófst með dauðsföllum eldra fólks sérstaklega sem var viðkvæmara fyrir slíkum veikindum. Hvað gerðu Danir þá? Þeir tóku sig til og bönnuðu innflutning á kjúklingum og ýmsu öðru frá Frakklandi. Við erum því í fullum rétti. Ég hef ekki minnstu lagalegu áhyggjur af þessu máli gagnvart ESA, Evrópusambandinu eða öðrum. Ég get kinnroðalaust staðið þar sem lögmaður og varið þetta frumvarp vegna þess að þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi, verulegir þjóðhagslegir hagsmunir sem ég hef rakið hér.

Ég vil að lokum segja að fyrir liggja umsagnir um frumvarpið eins og það lá fyrir á sumarþingi. Eina breytingin sem ég nefndi var að hrá egg og ósótthreinsuð hrá skinn og húðir eru ekki þar inni og því tel ég óþarft að kalla aftur eftir umsögnum en mun að sjálfsögðu ráðfæra mig við nefndina um það. Ég vil þó nefna við nefndarmenn í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að við erum komin langt út fyrir þá fresti sem okkur bar við að innleiða þetta. Við erum komin langt út fyrir þá fresti sem þar um ræðir og það þakka ég Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vegna þess að þjóðarnauðsyn brýtur lög. Það geri ég.

Það þarf að taka hratt á málinu af fyllstu kostgæfni og taka sérstaklega eftir þeim greinum frumvarpsins sem hér hafa verið nefndar að væru hugsanlega laumugestir. Það þarf að ræða sérstaklega heilbrigðiseftirlit, skoða vel og vandlega kostnaðarþættina og enn fremur greinina um dýralækna. Ég mun sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar beita mér fyrir góðu samstarfi í nefndinni og hef ekki áhyggjur af því.