138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[17:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hv. þingmaður sem er lögfróður maður geti kinnroðalaust samþykkt þetta frumvarp og hefur ekki trú á að þetta muni valda okkur neinum vandræðum varðandi EES-samninginn. Ég vona ég svo sannarlega að hann hafi rétt fyrir sér í þeim efnum.

Það gæti verið að hv. þingmaður hafi farið yfir það í ræðu sinni en þar sem ég á ekki sæti í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vildi ég vekja athygli á því að í ræðu minni benti ég á að í umsagnarlista þeim sem liggur fyrir á netinu og var sendur út við afgreiðslu frumvarpsins í sumar var ekki óskað eftir umsögnum frá utanríkisráðuneytinu, sérfræðingum landbúnaðarráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel og jafnvel ekki frá sérfræðingum í samningnum um EES, Evrópuréttarlögfræðingum.

Ég vil þess vegna beina því til hv. þm. Atla Gíslasonar, sem er formaður nefndarinnar, hvort hann gæti tekið þessa athugasemd mína til greina og óskað eftir því að þessir aðilar, og jafnvel fleiri sem þingmanninum hugnast að leita ráðgjafar hjá um þessi málefni, fái frumvarpið sent og við fáum umsögn þeirra. Mér finnst grafalvarlegt ef það er rétt sem margir sem hafa tjáð sig um í dag og á fyrri stigum að þetta gæti valdið okkur vandræðum við samninginn. Eins og ég sagði deili ég skoðun bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmanns um að við eigum ekki erindi inn í Evrópusambandið en mér er mjög umhugað um samninginn.