138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[17:51]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að það vantar umsagnir frá utanríkisráðuneytinu og eflaust fleiri aðilum sem hv. þingmaður nefndi. Ég verð þó að segja að ég veit til þess að samráð var haft við sérfræðinga annarra ráðuneyta, þar á meðal utanríkisráðuneytisins, við samningu frumvarpsins sem var lagt fram á sumarþingi. Þetta frumvarp hefur farið í gegnum ríkisstjórn með samþykki allra ráðherra þar eins og komið hefur fram. Ég hefði talið nægja í þessu tilviki að kalla þessa sérfræðinga fyrir nefndina en mun auðvitað hafa samráð við nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um málsmeðferð. Það verður að vinna þetta mál faglega en hratt.

Sumir óttast að við séum að fara gegn reglum á Evrópska efnahagssvæðinu, EES-reglum og ESB-reglum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég geti kinnroðalaust fært fram önnur rök. Ef vafi þykir liggja á því hvort frumvarpið standist þessar reglur höfum við leikreglur þar um, þ.e. þá leita þeir sem eru óánægðir með efni frumvarpsins til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og þar fer fram rökræða um þetta. Ég hef enga trú á öðru en að niðurstaða ESA — með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja þegar fyrir um þá miklu hættu sem íslenskum búfjárstofnum stafar af innflutningi á hráu kjöti og þeim veirusjúkdómum í Evrópu sem þekkjast ekki hér á landi sem og þeirri staðreynd að sífellt fer í aukana að veirusjúkdómar berist vegna frá Afríkuríkjum og öðrum inn til Evrópu hlýnandi loftslags og valdi stórhættu — ég trúi því ekki að menn berji hausnum við steininn og segi okkur Íslendingum að taka upp (Forseti hringir.) lakari matvælaöryggisreglur en við búum við í dag.