138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[17:59]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að fagna því að þetta frumvarp sé loksins komið fram. Ég er reyndar, ólíkt fyrri ræðumanni, ekki lögfræðingur og ekki lögfróð og get þar af leiðandi ekki haft neinar hugmyndir um það hvernig þessum málum mun lykta eða hvort menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta gangi gegn tilskipun Evrópusambandsins um matvælaöryggi. Hitt veit ég þó að það er búið að bíða mjög lengi eftir þessu frumvarpi og ég hef fylgst með því í störfum mínum undanfarin ár í Brussel að þar á bæ voru menn orðnir æði óþolinmóðir eftir að við innleiddum þessa tilskipun. Það vita viðstaddir líka.

Ólíkt fyrri ræðumönnum hef ég mikla trú á því að hagsmunum okkar sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Ég veit að ég deili ekki þessari skoðun með öllum hér. Ég veit hins vegar að EES-samningurinn hafði mikil og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og þá ekki síst það svið sem nú er til umræðu, þ.e. matvælasviðið og allt heilbrigðiseftirlit. Ég held að fáir deili um það. Ég rifja upp í þessu sambandi för heilbrigðisfulltrúa víðs vegar að af landinu í skoðunarferð til Brussel fyrir tveimur árum síðan eða svo þar sem þau létu almennt í ljós ánægju sína og sögðu að eftirlitskerfi Evrópusambandsins og reglugerðin hefði bætt mjög starfsumhverfið á þessu sviði. Þau fögnuðu því mjög og sögðust jafnvel hafa viljað fá meira á þessu sviði frá Evrópusambandinu.

Ég deili áhyggjum þeirra sem hafa áhyggjur af hreinlæti landsins, hreinlæti náttúrunnar, matvæla o.s.frv. Ég held að þegar að því kemur að við undirbúum samningsmarkmið okkar gagnvart Evrópusambandinu munum við leita allra leiða til að fá einhvers konar undanþágur eða alla vega halda mjög til haga sérstöðu okkar í þessum efnum. Ég þekki orðið það vel til landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og byggðastefnu og reglugerða sem þeim fylgja að ég held að þar séu ýmis sóknarfæri án þess að ég ætli að vekja sérstakar væntingar þar um. Ég held þó að allir viti og skynji mikilvægi þessa máls fyrir okkur þegar kemur að aðildarviðræðum. Ég held að það verði gaman að undirbúa nákvæmlega þessi samningsmarkmið í samvinnu við alla hagsmunaaðila eins og kveðið er á um í nefndaráliti utanríkismálanefndar sem samþykkt var á þinginu í sumar.

Spurningalistarnir hafa verið í vinnslu í stjórnkerfinu undanfarnar vikur. Það veit hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mjög vel og ýmsir aðrir sem hafa komið að þessum málum. Hann er að láta þýða hann, er kannski búinn að því, og ég veit að fleiri ráðherrar láta þýða spurningalistann. Sjálf kom ég aðeins að spurningalistanum um byggðamálin. Ég get sagt ykkur að þetta er ekkert ofsalega spennandi verkefni. Þetta er lýsing á stöðu mála og í raun er afar lítið pólitískt deilumál í þessum spurningalistum. Það er þó vel ef einhverjir vilja leggja í kostnaðinn við að þýða þetta. Það sem koma skal er að við fáum þetta efni frá svokölluðu Brussel-valdi á íslenskri tungu þegar og ef við göngum í Evrópusambandið.

Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er í mínum huga afar heppileg að flestu leyti fyrir íslenskan landbúnað, vegna þess að hornsteinninn í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins er matvælaöryggi. Þingmenn og ráðherrar hafa talað mikið um matvælaöryggi þjóðarinnar og svo vill til að það er hornsteinn landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.

Annar þáttur sem sækir sífellt í sig veðrið í landbúnaðarstefnunni er svokölluð dreifbýlisþróun. Þar er komið inn á málefni, veittir ríkulegir styrkir og ýmiss konar samstarf um verkefni sem hér hefur borið á góma og menn fagna og kalla eftir í íslenskum landbúnaði. Það er t.d. matvælavinnsla heima í héraði, ýmiss konar nýsköpun, landvernd og náttúruvernd og annað slíkt, nokkuð sem ég held að hvað sem öðru líður sé það sem vantar í íslenskan landbúnað til þess að styrkja hann og skjóta rótum undir starf bænda.

Ég vil eins og flestir landsmenn tryggja viðgang íslensku bændastéttarinnar. Það hvarflar ekki annað að mér en einmitt þess vegna hlakka ég til. Ég held að þetta verði ánægjulegt og skemmtilega ögrandi verkefni fyrir okkur, þ.e. að semja samningsmarkmiðin í landbúnaðarkaflanum og ganga til aðildarviðræðna. Ef ekki semst vel þá á þjóðin síðasta orðið, svo mikið er víst. Ég yrði mjög hissa ef við kæmum heim með vonda samninga á sviði landbúnaðarmála og í rauninni gildir margt í sjávarútvegsmálunum líka.

Þetta er verkefnið fram undan. Við vitum líka að við erum farin að undirbúa aðildarviðræðurnar vegna þess að við erum búin að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Undirbúningurinn er hafinn. Eflaust vitið þið mörg að hingað hafa komið embættismenn frá Brussel, frá hinu ægilega Brusselvaldi sem er svo sem ekkert svakalegra en margt annað valdið sem við þurfum að lúta. Hingað hafa komið embættismenn og kynnt hvað bíður okkar á næstu mánuðum meðan á aðildarviðræðum stendur. Þar er ýmislegt í boði sem ég held að hafi þrátt fyrir allt opnað augu margra fyrir því að mjög margt kann að leynast í Evrópusambandinu sem verður til hagsbóta fyrir íslenska bændur eins og íslenska neytendur og þjóðina almennt.