138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta ógni EES-samningnum. Þá eru aldeilis brauðfætur undir þeim samningi. Þau ákvæði sem hér eru tilgreind sækja einmitt stoð í EES-samninginn. Í 13. gr. EES-samningsins er kveðið á um heimild til þess og reyndar skyldur og kvaðir sem gætu verið lagðar á Íslendinga í þessum efnum. Ég hef ekki áhyggjur af því. Ég hef frekar áhyggjur af því ef við gerðum þetta ekki. Þá værum við líka að bregðast skyldum og kvöðum því okkur ber að standa vörð um fjölbreytileika og vernda búfjártegundir og dýr, bæði húsdýr og villt dýr sem staðið gæti ógn af. Það eru því margir þættir sem á okkur liggja og ábyrgð sem á okkur hvílir fyrir utan samfélagslega þætti og annað þvílíkt. Ég hef ekki áhyggjur af því og treysti því frekar að hv. þingmaður standi með mér í þeim efnum.

Varðandi að einhver geti höfðað mál þá er það þannig með lagasetningu almennt og öll lög að menn geta höfðað mál og kannað hvort eitthvað sé í samræmi við ákveðin lög. Það er hinn lýðræðislegi réttur hvers og eins. Ég treysti því að þessi lagasetning sem við vonandi ljúkum hér standi, enda er það þjóðinni og okkur öllum til heilla að svo verði.