138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir innlegg hans í þessa umræðu í dag. Hæstv. ráðherra vakti máls á því að ekki hefðu borist fleiri ályktanir eða athugasemdir í neinu öðru máli í hans minni í þingsögunni en varðandi þetta matvælafrumvarp. Vissulega var þó mikið rætt og ritað um þingsályktunartillöguna um að sækja um aðild að Evrópusambandinu hér í vor. Við ráðherrann deilum þeirri skoðun að það þjóni ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í Evrópusambandið og að það þjóni fyrst og fremst ekki hagsmunum íslensks landbúnaðar að ganga þar inn.

Vissulega finnst mér athyglisverð sú athugasemd sem fram kom í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur fyrr í umræðunni um að hugsanlega hefði þetta áhrif á þær samningaviðræður sem fram undan eru við Evrópusambandið. Þá veltir maður upp þeirri hugsun hvort hæstv. ráðherra sé einfaldlega snjallari en við öll og sé þarna búinn að finna leið til þess að við göngum aldrei inn í Evrópusambandið. Það er rétt að velta þessu aðeins upp og ég spyr ráðherrann beint að því hvort þetta sé hans undirliggjandi hugsun í málinu.

Vissulega eru þetta íslensk lög sem við erum að setja en engu að síður eru þau byggð á Evrópuréttinum. Við værum ekki að þessu nema vegna þess að við erum aðilar að EES-samningnum og erum að innleiða reglugerðir Evrópuþingsins. Þetta er nátengt og vissulega er horft til þess hvernig við stöndum að innleiðingu þessa regluverks alls saman. Það er gert í Brussel.

Ég vil líka leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að hann minntist á að vissulega hefði verið haft samráð við virta lögfræðinga í Evrópurétti við þessa lagasetningu. Getur hann upplýst þingið um hvaða lögfræðingar og sérfræðingar í Evrópurétti voru ráðuneytinu til ráðgjafar við smíðina á þessu frumvarpi?