138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[18:34]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum.

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram á fyrri þingum en var ekki afgreitt. Það er nú lagt fram á ný og tekur þessi útgáfa mið af athugasemdum og breytingartillögum allsherjarnefndar frá því í apríl sl. en nefndin lagði m.a. til að ákvæði um fjármögnun og hvatningu til hryðjuverka, sem var í fyrri frumvörpunum, yrðu felld brott.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga er m.a. varða upptöku eigna, hryðjuverk, mansal og peningaþvætti. Er um að ræða endurskoðun umræddra ákvæða vegna alþjóðlegra skuldbindinga, annars vegar vegna fullgildingar samnings um alþjóðlega brotastarfsemi og hins vegar vegna tilmæla frá alþjóðlegum nefndum sem Ísland á aðild að. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um skipulagða brotastarfsemi, sem er nýmæli.

Helstu efnisákvæði frumvarpsins eru í fyrsta lagi þau að lagt er til að lögfestur verði nýr kafli um upptöku eigna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Um er að ræða heildstæðar breytingar sem taka að verulegu leyti mið af gildandi ákvæðum í dönsku og norsku hegningarlögunum. Lagt er til að lögfest verði ákvæði sbr. c-lið 2. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að unnt verði að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt sé fram á að þau megi rekja til tiltekins refsiverðs brots hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað a.m.k. sex ára fangelsi. Að þessum skilyrðum uppfylltum megi gera upptæk verðmæti sem tilheyra viðkomandi nema hann sýni fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Við þessar aðstæður og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum megi jafnframt gera upptæk verðmæti sem tilheyra maka eða sambúðarmaka viðkomandi og verðmæti sem runnið hafa til lögaðila sem viðkomandi hefur einn eða með sínum nánustu ráðandi stöðu í sé ekki sýnt fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Er því gert ráð fyrir fráviki frá meginreglunni um sönnunarbyrði ákæruvaldsins við þessar aðstæður. Sem dæmi um beitingu ákvæðisins má nefna þá aðstöðu þegar einstaklingur sem hefur verið gripinn á flugvelli með fíkniefni í farangri sínum, sem ætluð eru til sölu, er sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þótt enginn ávinningur hafi þannig hlotist af brotinu er ljóst miðað við eðli þess og umfang að það var til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning. Við rannsókn ákæruvalds á eignastöðu og fjárhag viðkomandi kemur í ljós að hann á verulegar eignir og fjármuni sem ekki eru í samræmi við uppgefnar tekjur hans eða aðrar fjárhagslegar upplýsingar sem aflað hefur verið. Við slíkar aðstæður getur ákæruvaldið krafist upptöku á þessum verðmætum, þó svo að þau verði ekki rakin til þess brots sem viðkomandi hefur verið sakfelldur fyrir og nær slík krafa fram að ganga nema viðkomandi sýni fram á að verðmætanna hafi verið aflað með lögmætum hætti. Mikilvægt er að árétta að endanlegt mat á þessu er í höndum dómstóla og ættu því hagsmunir sakbornings að vera nægjanlega tryggðir. Í IV. kafla frumvarpsins og í sérstökum athugasemdum við c-lið 2. gr. er fjallað ítarlega um þessa tillögu.

Í öðru lagi vil ég nefna að lagt er til að lögfest verði nýtt ákvæði sem gerir það refsivert að taka þátt í skipulagðri brotastarfsemi og á ég þá við 5. gr. frumvarpsins. Samkvæmt henni yrði refsivert að fremja í félagi við annan afbrot ef framkvæmdin er liður í starfsemi skipulagðra glæpasamtaka.

Í V. kafla greinargerðarinnar með frumvarpinu er ítarlega fjallað um þær réttarpólitísku röksemdir sem liggja til grundvallar þessari tillögu og er því nánar lýst í sérstökum athugasemdum við greinina.

Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á a-lið 227. gr. almennra hegningarlaga um mansal, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Skilgreining á mansalsbroti er gerð skýrari og í samræmi við Evrópuráðssamning um aðgerðir gegn mansali og bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um fjölþjóðlega skipulagða brotastarfsemi, svokallaða Palermó-bókun. Þá bætist við ný málsgrein sem lýsir refsinæmi athafna sem tengjast ferða- og persónuskilríkjum. Ég vil nefna það að í ráðuneytinu er í vinnslu frumvarp til laga um breytingu á útlendingalögum sem lýtur að því að gefa fórnarlambi mansals umþóttunartíma þannig að það dveljist ekki ólöglega í landinu meðan á honum stendur.

Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði verulegar breytingar á 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Er m.a. lagt til að almenn verknaðarlýsing peningaþvættis verði gerð skýrari og gildissvið hennar rýmkað. Þá er refsihámark fyrir peningaþvættisbrot hækkað úr fjórum árum í sex. Það skal tekið fram að ekki er hróflað við reglu 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga þar sem kveðið er á um að refsing geti orðið allt að tólf árum ef um ræðir ávinning af fíkniefnabroti.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram hefur frumvarp þetta verið flutt áður. Rétt er að nefna sérstaklega að hér er um að ræða mikilvægar réttarbætur fyrir refsivörslukerfið, m.a. til handa lögreglunni í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi og því tel ég afar mikilvægt að frumvarpið verði afgreitt á þessu löggjafarþingi.

Leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og til 2. umr.