138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[18:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir skörulegan flutning á þessu frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum. Ég tel mjög mikilvægt miðað við það sem farið hefur fram í umræðunni þar sem reyndir þingmenn hafa farið yfir söguna á bak við þetta mál. Ég fagna því að það sé komið fram og vonast til að það nái fram að ganga í þinginu og verði að lögum á þessu þingi.

Varðandi þann kafla sem fallið hefur út þá vonast ég til þess að allsherjarnefnd skoði og fari vel yfir það en jafnframt kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni og Birgi Ármannssyni að mikil vinna hafi farið fram í allsherjarnefnd á fyrri þingum varðandi þetta mál. Með vísan til þess að fyrri þing hafi farið ítarlega yfir mál þá upplifðum við það í sumar að mál, þ.e. náttúruverndaráætlun, var afgreitt út úr umhverfisnefnd án umræðu. Slík vinnubrögð tel ég ekki vera til fyrirmyndar og ekki líðandi. 27 nýir þingmenn sitja á þessu þingi og ég tel að við höfum fulla burði til að fara vel yfir mál. Ég tel að þessir 27 nýju þingmenn hafi vilja til þess að setja sig sjálfir inn í þau mál sem fá framgang í þinginu og ég vonast til þess að þetta mál sem önnur verði beitt þeim vinnubrögðum að farið verði yfir þau, leitað verði umsagna og fengnir gestir á fund nefndarinnar til að fara yfir þessi mál.

Ég hefði óskað þess að eiga orðastað við formann allsherjarnefndar en því miður er formaðurinn, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, ekki við þessa umræðu í dag. Það er spurning hvort hv. þm. Atli Gíslason geti upplýst mig um hvort þessi vinnubrögð verði viðhöfð vegna þess að ef ég man rétt þá tók hv. þm. Atli Gíslason undir athugasemdir okkar við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar í gegnum þingið fyrr í sumar. Ég vonast til þess að ég eigi stuðning hjá honum í þessu máli sem öðrum að við nýju þingmennirnir fáum að fara yfir málin á sjálfstæðan hátt og mynda okkur sjálfstæða skoðun á þeim.

Mér þykja mjög athyglisverðar þær umræður eða skoðanaskipti sem áttu sér stað milli hv. þm. Birgis Ármannssonar og Atla Gíslasonar sem báðir eru í allsherjarnefnd varðandi þau hryðjuverkaákvæði sem þarna voru klippt út á milli þinga. Ég vonast til að nefndin fari jafnframt yfir þau ákvæði.

Ég tel að svo komnu máli, hæstv. forseti, ekki ástæðu til að fleiri orðum um þetta en vonast enn og aftur til að vönduð vinnubrögð verði í nefndinni og að við fáum að fjalla um málið efnislega.