138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[19:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að koma því á hreint að forföll formanns allsherjarnefndar liggja fyrir og er í fínu lagi með það.

Ég þakka honum fyrir að taka undir að við förum vel yfir þetta mál í nefndinni. Ég veit ekki hvort ástæða er til að rifja upp frekar þessa deilu um náttúruverndaráætlunina en engu að síður fór áætlunin ekki í gegnum þingið. Hún var einfaldlega tekin út úr nefnd og fór ekki í gegnum þingið, var ekki afgreidd að fullu þannig að hún kemur til með að fara aftur í meðferð umhverfisnefndar á þessu þingi. Ég krefst þess að hún fái þar málefnalega umfjöllun. Það er ekki hægt að gera undanþágur frá grundvallaratriðum eins og þeim að fara vel yfir mál. Það er einfaldlega ekki lýðræðislegt.

Ég trúi því í hjarta mínu að þetta hafi farið svona með náttúruverndaráætlunina í sumar vegna þess að fólk var orðið þreytt og ætlaði sér eitthvað sem það hefði í venjulegu ástandi aldrei ætlað sér að standa fyrir. Ég vona að í öllum þeim málum sem hér liggja fyrir og eru gríðarlega mikilvæg, bæði þau sem hér eru til umræðu og eins varðandi náttúruverndaráætlunina, fái lýðræðislega og góða meðferð á þessu þingi.