138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn höfum staðið í ströngu við að leiðrétta ýmsan misskilning varðandi Icesave-málið og þann hræðsluáróður sem haldið hefur verið uppi. Síðar tók hæstv. utanríkisráðherra af skarið og benti þjóðinni á að EES-samningurinn væru ekki í hættu þó að Íslendingar vildu ekki borga Icesave-reikningana umfram skyldu.

En það er annað sem stendur út af borðinu og það hefur komið fram í fjölmiðlum að eitthvað hræðilegt eigi að gerast 23. október nk. Ýjað er að því að það sé dagsetningin sem íslenska ríkið verði hugsanlega gjaldþrota. Sannleikurinn er einfaldlega sá að þann 23. október hefst greiðsluskylda innstæðutryggingarsjóðsins. En það sem er merkilegt við það er að þann dag gæti staða Íslendinga gagnvart Hollendingum og Bretum einmitt batnað til mikilla muna vegna þess að þá er það undir þeim komið að sækja mál á hendur íslenska ríkinu vegna innstæðutryggingarsjóðsins um hvaða fjárhæð það er sem sjóðnum beri að greiða. Og það er einmitt sú staða sem við Íslendingar þurfum að komast í. Við þurfum að láta reyna á fyrir hlutlausum dómstólum hver hin raunverulega greiðsluskylda Íslendinga er.

Nú langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og biðja hann eins og hæstv. utanríkisráðherra gerði um daginn að leiðrétta þennan misskilning og eyða þessum hræðsluáróðri.