138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að eiga orðaskipti við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, formann umhverfisnefndar. Ástæðan er stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Við þekkjum það að þessi ríkisstjórn ætlaði í upphafi að hafa mikil samráð. Það gekk að vísu ekki eftir en ég ætla að ríkisstjórnarflokkarnir hafi í það minnsta samráð sín á milli þannig að hv. þingmaður ætti að geta upplýst þingið um stefnu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna hvað þennan mikilvæga málaflokk varðar.

Í örstuttu máli er það þannig að við Íslendingar höfum verið algerlega til fyrirmyndar þegar kemur að orkunýtingu. Við erum með algera sérstöðu í heiminum og ef allar þjóðir væru eins og Ísland væru engin loftslagsvandamál. Af þeim sökum fengum við það sem kallað hefur verið íslenska ákvæðið í Kyoto-samningnum. Nú berast fréttir og þótt það sé ekki skýrt sem fram kemur má skilja það af hæstv. umhverfisráðherra að ekki eigi að fara fram á að þetta ákvæði verði endurnýjað. Það þýðir með öðrum orðum að hér yrði algert uppnám hjá þeim fyrirtækjum sem þurfa á þessum losunarkvóta að halda. Það þýðir að við værum þá eina þjóðin sem færi til þessara samninga án þess að gæta eigin hagsmuna og væri það væntanlega einsdæmi í heiminum. Ég vil spyrja um afstöðu ríkisstjórnarflokkanna hvað þetta varðar. Er það virkilega svo að menn ætli ekki að fara fram á að íslenska ákvæðið verði endurnýjað? Einnig vil ég spyrja, virðulegi forseti, hv. þingmann um hvort það standi til (Forseti hringir.) eða komi til greina að Evrópusambandið fari með samningsumboð eða gæti hagsmuna okkar í (Forseti hringir.) þessum viðræðum.