138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:45]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vænti þess að þetta verði rætt nánar á þingfundi á morgun. Staðreyndin er sú að stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum byggir á stefnumörkun sem mótuð var í byrjun árs 2007 af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Á því byggja allar þær ákvarðanir sem teknar voru í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og á því byggja líka ákvarðanir núverandi ríkisstjórnar. Hér hefur í raun verið fylgt mjög skýrri stefnu frá 2007 um meiri háttar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050 og síðan, þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra, um að skipa okkur fremst í flokk þeirra sem draga vilja úr losun, koma í veg fyrir gróðurhúsaáhrif og hlýnun á jörðinni. Í þeim efnum áttum við náið samstarf, ég og hv. fyrirspyrjandi, í ríkisstjórn Geirs Haardes og mótuðum samningsmarkmið og umboð fyrir loftslagsráðstefnuna á Balí í lok árs 2007. Á því hefur síðan verið áfram byggt.

Ég tók síðan frumkvæði að því að fara í óformlegar viðræður við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um nánara samstarf í loftslagsmálum. Þær viðræður eru nú orðnar formlegar undir forustu hæstv. umhverfisráðherra. Allt miðar þetta að því að tryggja langtímahagsmuni Íslands, jafnt umhverfislega, ef svo má að orði komast, sem efnahagslega. Það verður aðeins gert með því að loka okkur ekki inni í umræðu um svokallað íslenskt ákvæði, ákvörðun 14/CP.7, sem kemst væntanlega einhvern tíma á dagskrá í samningaviðræðunum. En fram að þeim tíma verður að tryggja (Gripið fram í.) að getum við aukið (Gripið fram í.) sveigjanleika okkar í þessum efnum í samvinnu við Evrópusambandið.