138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt og ritað hér, meira að segja úr þessum þingstól, um ákvarðanir umhverfisráðherra varðandi úrskurðinn um Suðvesturlínu. Þar hafa stuðningsmenn ráðherra haldið því fram að ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli góðra stjórnsýsluhátta. Þessu er ég einfaldlega ekki sammála og ég vonast til þess að einhverjir þeirra stjórnarþingmanna sem hér sitja í þingsalnum í dag treysti sér til að eiga orðastað við mig um þetta mál.

Í fyrsta lagi virðist kærufrestur hafa verið liðinn þegar sú kæra sem ákvörðun umhverfisráðherra byggði á kom fram. Jafnframt leið sá tími sem ráðuneytið hafði til þess að fjalla um málið og þrem mánuðum betur áður en úrskurður kom fram. Eins voru aðilar ekki upplýstir um meðferð málsins. Það þýðir ekki að ráðherrar breyti leikreglum eftir á. Þetta er dæmi um lélega stjórnsýslu og brot á meðalhófsreglunni.

Annað dæmi er aðalskipulag Flóahrepps þar sem m.a. er sett inn á aðalskipulag sveitarfélagsins virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Sveitarfélögin hér á landi fara með skipulagsvaldið. Sveitarstjórn Flóahrepps er til þess bært stjórnvald að afgreiða aðalskipulag og hefur gert það. Skipulagsstofnun hefur ekki gert neinar efnislegar athugasemdir við þetta skipulag og ekki heldur við formið á því. Hins vegar liggur þetta á borði umhverfisráðherra. Það hefur gert það í marga mánuði án þess að við því fáist svör hvers vegna tafir eru eða hvers vegna ráðherrann hangir eiginlega á málinu. Það lítur út fyrir að ráðherrann sé einfaldlega ekki sátt við að setja eigi virkjanir inn á skipulag hreppsins og þess vegna sé verið að draga lappirnar í þessu máli. En það er margt annað sem býr að baki. Aðalskipulag Flóahrepps fjallar um margt annað en virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Menn geta ekki farið í neinar framkvæmdir fyrr en aðalskipulagið liggur fyrir. Í stórum hluta sveitarfélagsins (Forseti hringir.) er ekki gilt aðalskipulag og það er ekki hægt að fara í neinar framkvæmdir. Ég óska eftir því að einhver geti útskýrt fyrir (Forseti hringir.) mér þessa góðu stjórnsýsluhætti ráðherra.