138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í því árferði þegar við horfum upp á að 13 þúsund Íslendingar eru án atvinnu, mörg hundruð Íslendingar hafa farið af atvinnuleysisskrá og stunda nú nám við íslenska skóla, og mörg hundruð Íslendingar hafa því miður flust af landi brott vegna þess að hér er ekki atvinna við hæfi, búum við við ríkisstjórn sem leggur stein í götu erlendrar fjárfestingar í landinu og þess að þúsund ný störf verði byggð upp hér á landi. Það var eftirtektarvert að heyra hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, tala um það hér að ekki eins dags seinkun verði á uppbyggingu álvers í Helguvík. Við höfum heyrt þessa setningu áður úr röðum Samfylkingarinnar þegar þáverandi hv. þingmaður og núverandi hæstv. iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir sagði þegar þáverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar felldi svipaðan dóm yfir framkvæmdum fyrir norðan, að þá yrði ekki eins dags seinkun hvað varðaði framkvæmdir í atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu. Hver voru orðin? Það var ekki einn dagur. Það var heilt ár sem framkvæmdir og rannsóknir töfðust vegna þess úrskurðar. Það er því grátlegt að við skulum búa við slíka ríkisstjórn þegar þúsundir Íslendinga ganga um án atvinnu. Þegar við þurfum að fá auknar skatttekjur í ríkiskassann velur ríkisstjórnin að standa í vegi fyrir öflugri atvinnuuppbyggingu sem hefði skilað miklum fjármunum inn í ríkiskassann en það þarf að sækja þá fjármuni væntanlega eitthvert annað. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeim efnum? Jú, það á að leggja hærri skatta á fjölskyldurnar í landinu á kostnað þessarar atvinnuuppbyggingar. Ég fullyrði að íslensk heimili hafa ekki efni á þeirri skattstefnu sem ríkisstjórnin rekur nú, hvað þá að atvinnulausir hafi efni á svona ríkisstjórn sem stendur í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu hér á landi (Forseti hringir.) á landsvæði þar sem atvinnuleysi er einna mest á landinu í dag.