138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Guðbjart Hannesson hvort hann væri til í að leiðrétta þann hræðsluáróður sem Samfylkingin keyrir nú varðandi 23. október. Nei, það var ekki hægt. Honum skal haldið áfram, reyndar ekki með rökum heldur er sagt: Við fáum ekki lánafyrirgreiðslur.

Þann 23. október hefst greiðsluskylda innstæðutryggingarsjóðsins. Algerlega óskylt mál, lánafyrirgreiðslur, og það gerist akkúrat ekkert 23. október. Þjóðin þarf að vita það og það er ábyrgðarhluti hjá þingmönnum að láta eitthvað út úr sér sem stenst ekki. Og vegna þess að hv. þingmaður sagði að þetta hefði verið til umræðu í fjárlaganefnd vil ég taka eitt fram: Fyrir fjárlaganefnd komu fram tveir af virtustu lögmönnum landsins, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður. Báðir bentu á og munu benda á ef til þeirra verður leitað að það gerist akkúrat ekkert 23. október annað en að greiðsluskylda innstæðutryggingarsjóðsins hefst. Og hvað gerist þá í kjölfarið? Jú, það stendur upp á Breta og Hollendinga að láta reyna á hver greiðsluskylda sjóðsins er og það er akkúrat sú staða sem Íslendingar þurfa að komast í þannig að það reyni á hversu háa fjárhæð Íslendingar eiga að greiða. En af einhverjum ástæðum vilja Samfylkingarmenn ekki að sú staða komi upp og það finnst mér ótrúlegt. Ég skynja það ekki öðruvísi, því miður. En ég ítreka: Það gerist akkúrat ekkert 23. október nema þá að staða Íslendinga verður sterkari gagnvart Hollendingum og Bretum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)