138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[14:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í það að spá hvað gerist 23. október eða hvað gerist eftir hádegi á morgun. Það hefur verið þannig í þinginu og í stjórnmálunum almennt að erfitt hefur verið að sjá fyrir þá atburði sem hafa átt sér stað. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvort þm. Guðbjartur Hannesson hafi séð fyrir það sem gerðist eftir að Alþingi samþykkti Icesave-frumvarpið svokallaða í ágústlok.

Það var ekki óumdeilt eins og menn þekkja, en meiri hluti Alþingis samþykkti frumvarp sem fól í sér að ríkisábyrgð væri veitt með tilteknum skilyrðum. Alþingi fól ríkisstjórninni að kynna Hollendingum og Bretum þessi skilyrði. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Guðbjartur Hannesson sé ekki sammála mér um það að í niðurstöðu Alþingis í lok ágúst hafi falist niðurstaða, hvað það var sem Alþingi vildi að gerðist í málinu en ekki nýtt samningsumboð til ríkisstjórnar Íslands. Mér hefur sýnst á þeim óljósu fréttum sem borist hafa af samskiptum íslenskra stjórnvalda og Hollendinga og Breta undanfarnar vikur að það séu einhverjar samningaviðræður í gangi. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Guðbjartur Hannesson hafi ekki skilið afgreiðslu Alþingis 28. ágúst eins og ég, að þar væri ríkisstjórninni falið að kynna Hollendingum og Bretum niðurstöðu Alþingis og afla samþykkis þeirra en ekki að fara í nýjar viðræður um Icesave-málin.