138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

þýðing á spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

25. mál
[14:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ber fram þá fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hún hafi beitt sér fyrir því að spurningar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna aðildarumsóknar Íslands yrðu þýddar á íslensku. Ég gæti auðvitað tekið ýmsa vinkla á þessa fyrirspurn, m.a. kröfu Bændasamtakanna um að þessi skjöl verði þýdd. Nú hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveðið að láta þýða sinn hluta. Ég gæti líka tekið þann vinkil sem við undirstrikuðum eftir ágætishrinu í umhverfismálanefnd að allt ferlið frá upphafi til enda yrði að vera gegnsætt og aðgengilegt fyrir almenning. Ég gæti líka tekið þann vinkil en ég geri það ekki.

Það sem ég vil hins vegar undirstrika í fyrirspurn minni eru tengslin við íslenska málstefnu sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ber ábyrgð á varðandi eftirfylgni. Ég leyfi mér að rifja það upp núna að fyrir rétt tæpu ári síðan mælti ég sem menntamálaráðherra fyrir íslenskri málstefnu. Í þeirri umræðu tók m.a. þátt fulltrúi frá Vinstri grænum, hæstv. núverandi menntamálaráðherra, þar sem hún fagnaði þessari málstefnu. Ég held að við höfum öll verið sammála um ágæti málstefnunnar og ég undirstrika að hæstv. menntamálaráðherra hefur haft sérstaklega mikinn metnað gagnvart íslenskri málstefnu, varðandi allt ferlið innan þingsins. Hæstv. menntamálaráðherra sagði í vor þegar íslensk málstefna var fullgilt, með leyfi forseta:

„Ég óska okkur til hamingju með afgreiðslu þessa máls og ég treysti því að við sem hér sitjum vinnum áfram að því að málstefnan muni komast til framkvæmda.“

Sjálf hafði ég líka undirstrikað sem ráðherra að þetta væru enn þá bara orð á blaði og það skiptir máli að fylgja þessu eftir, stuðla að samvinnu og að þingið þyrfti líka að koma að því að fylgja íslenskri málstefnu eftir.

Þess vegna undirstrika ég að ég veit að viljinn og metnaðurinn er mikill hjá hæstv. menntamálaráðherra varðandi íslenska málstefnu. En engu að síður er menntamálaráðherra ábyrgur fyrir framkvæmd íslenskrar málstefnu og þetta er í rauninni fyrsta tækifærið sem reynir á hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir eftirfylgni íslenskrar málstefnu. Þess vegna er eðlilegt að við í þinginu sýnum ríkisstjórninni ákveðið aðhaldshlutverk varðandi framkvæmd íslenskrar málstefnu og ég spyr því: Beitti menntamálaráðherra sér fyrir þýðingu á spurningum framkvæmdastjórnar innan ríkisstjórnar, í stjórnkerfinu eða annars staðar eða á öðrum sviðum? Mér finnst sérstaklega mikilvægt að fá að draga það fram. Beitti hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir þessu innan ríkisstjórnar? Talar hún máli íslenskrar tungu þegar við eigum í samskipti við Evrópusambandið?