138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

þýðing á spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

25. mál
[14:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa fyrirspurn sem er mjög mikilvæg því að hún snýr einmitt að þeirri málstefnu sem þingmaðurinn nefndi og var samþykkt á vordögum. En hún snýr líka að lýðræðislegri hlið þess ferlis sem nú stendur yfir og varðar aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Ég held að ég segi það réttilega að þegar þingsályktunartillagan um aðildarumsóknina var til umræðu í vor og snemmsumars og rætt var um þýðingarkostnað var ekki sérstaklega minnst á eða rætt um þessar spurningar. Gert var ráð fyrir ákveðnum þýðingarkostnaði en ekki því að hann mundi falla á núna strax, svo því sé haldið til haga. En um leið og þessar spurningar komu fram og voru birtar á vef utanríkisráðuneytisins í anda opinnar stjórnsýslu vaknaði auðvitað sú spurning, ekki aðeins hjá stjórnmálamönnum og þingmönnum heldur líka hjá almenningi úti í samfélaginu, hvort ekki stæði til að þýða ekki bara spurningarnar heldur líka svörin sem nú er unnið að víðs vegar í stjórnkerfinu. Evrópusambandinu. Ég

Þýðingarkostnaðurinn sem hér var til umræðu, svo við rifjum það upp, sneri einkum að þessum stóru viðfangsefnum, tilskipunum og lagabálkum sem líka þarf að þýða í tengslum við þetta ferli. Það er ekki lítið efni sem þýða þarf yfir á íslensku því að samið er um marga kafla, eina 35 kafla ef ég man rétt, og þarf að þýða ýmislegt baklægt efni sem ekki hefur verið þýtt hingað til. Þegar þessi umræða kom upp var þetta rætt við ríkisstjórnarborðið. Ég get vottað það að nauðsyn þess að þýða ekki aðeins spurningar heldur líka svör hefur tvisvar verið rædd í ríkisstjórn. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sú sem hér stendur hafa tekið þetta upp á þeim vettvangi og það liggur fyrir að við munum bæði láta þýða það sem að okkur snýr. Ég á reyndar frekar von á því, og það var rætt í mjög góðu samtali við hæstv. utanríkisráðherra og ráðuneyti hans, að ráðuneytin muni sjálf hvert um sig annast framsetningu spurninga og svara og líka á íslenskri tungu, reikna ég með. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gert grein fyrir því að þetta er mismikil vinna milli ráðuneyta. Ég get sagt það fyrir mína parta að mig grunar að þetta verði einar 100 blaðsíður hjá mér, sem þykir kannski ekki mikið miðað við hjá landbúnaðarráðuneytinu þar sem verkefnið er meira.

Ég held að þetta sé mikilvægt því að eins og fram kom í þeirri málstefnu sem samþykkt var eru þær áhyggjur sem málræktarmenn og málfræðingar hafa einna helst af tungunni svokallaður umdæmisvandi, þ.e. að íslensk tunga hopi á ákveðnum sviðum samfélagsins. Það sem hefur t.d. verið nefnt í þeim efnum er heimur vísinda þar sem fræðigreinar birtast að miklu leyti á ensku sem er eitt helsta vísindamálið um þessar mundir. Fræðimenn birta hins vegar ekki endilega sömu greinar á íslensku þannig að hættan er sú að fólk hætti að hugsa á íslensku, eins og rætt var í góðu greinasafni Þorsteins Gylfasonar, Að hugsa á íslensku. Það er hættan í raun og veru, að við hættum að ræða um ákveðnar greinar á íslensku. Við verðum að vera á verði gagnvart því að missa t.d. ekki þetta mál, þetta samfélagslega umdæmi sem er gríðarlega mikilvægt í allri stjórnmálaumræðu og öðru, við megum ekki missa tökin á því. Þess vegna skiptir máli að við þýðum sem mest frá upphafi ferlisins svo við horfum ekki upp á að umræðan verði að hluta óaðgengileg því að þetta snýr ekki bara að málstefnu. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á eru ýmsar hliðar á þessu máli. Ein hliðin á því er lýðræðislega hliðin, þ.e. hvernig við gerum upplýsingarnar sem mest aðgengilegar almenningi. (TÞH: Þetta skapar atvinnu.) — Já, fyrir utan að þetta er atvinnuskapandi, hv. þingmaður. Staðreyndin er sú að tungutak þess tungumáls, enskunnar sem notuð er í þessum efnum, er heldur ekki öllum aðgengilegt þótt þeir telji sig slarkfæra í ensku. Það skiptir máli og við höfum líka séð það í gegnum tíðina að ýmsar þýðingarvillur hafa komið upp einmitt út af einföldum misskilningi á stofnanahugtökum þannig að ég tel mjög mikilvægt að þarna sé vandað til verka.

En svarið er sem sagt þetta: Þetta hefur verið rætt við ríkisstjórnarborðið. Þegar er farin vinna í gang við þýðingar í í mennta- og menningarmálaráðuneyti og í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og því var vel tekið í ríkisstjórn að þetta yrði gert á vegum hvers ráðuneytis fyrir sig.