138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

þýðing á spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

25. mál
[14:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er mikið grundvallaratriði í Evrópusambandinu og hefur alltaf verið að menn hafi aðgengi að öllum upplýsingum á móðurmáli sínu. Í sambandinu eru gefnar út alveg óhemjumargar skýrslur hvers konar og margar þeirra alveg gífurlega leiðinlegar og langar, en allar þó þýddar til að menn geti, þótt fáir séu, lesið þær á sínu eigin tungumáli. Þess vegna er svolítið vandræðalegt að fyrsta aðkoma Íslands að málinu skuli ekki vera til á okkar eigin máli.

Það sem ég ætlaði þó að leggja áherslu á var það sem hæstv. menntamálaráðherra nefndi áðan, að á þessu er líka lýðræðislegi flöturinn, spurningin um aðgengi. Það hefði nefnilega verið kjörið að birta þetta á íslensku á netinu jafnóðum og menn vinna að svörunum og gefa þannig þeim sem hafa þekkingu á hverju sviði fyrir sig tækifæri til að tjá sig jafnóðum og finna hugsanlega galla á meðferð málsins áður en svörin verða send inn. Ég lýsi undrun á því hvað menn gefa sér stuttan tíma í að vinna þetta mál.