138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

þýðing á spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

25. mál
[14:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með síðustu orðum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar varðandi aðgengi og gegnsæi fyrir almenning allan. Þetta ferli frá upphafi til enda verður að vera hafið yfir allan vafa. Hluti af því er að við getum lesið gögnin á íslensku og fræðst um þau jafnóðum.

Ég gæti sagt um hæstv. menntamála- og menningarráðherra sem hefur stundum verið kennari í hjáverkum að hún hafi í rauninni kannski fallið á fyrsta prófinu um íslensku málstefnuna. En ég ætla ekki að gera það af því að ég veit að hún er sönn og heiðarleg, hæstv. menntamálaráðherra, í allri sinni aðkomu að íslenskri tungu og íslensku máli. Ég veit að hún mun gæta þess sérstaklega í framtíðinni, með góðu aðhaldi frá okkur í þinginu, að íslensk málstefna verði í heiðri höfð. Ég hvet hana sérstaklega áfram til dáða í að einbeita sér ekki bara að heimahögum sínum, þ.e. högum sínum í ráðuneyti mennta- og menningarmála, heldur þarf líka að hvetja aðra ráðherra til dáða í þessu máli, að þeir sýni líka metnað í því að málaflokkar þeirra verði þýddir á íslensku.

Hæstv. utanríkisráðherra talar um að þingið hafi ekki rætt þetta. Ég er algjörlega ósammála honum um það. Íslensk málstefna er stefna út af fyrir sig sem er algild núna til lengri tíma litið. Það á að draga hana og samþætta inn í öll meginverkefni utanríkismála eða annarra mála Stjórnarráðsins. Hún er sjálfsagt og eðlilegt plagg inn í þá vinnu alla.

Ef menn ætla að fara að ræða um kostnað eru einfaldlega hæg heimatökin hjá ráðherrum. Þetta er ekki 10 millj. kr. kostnaður eins og menn töluðu um í byrjun. Það er ljóst að það er algjörlega ofáætlað. Þetta er mun minni kostnaður fyrir Stjórnarráðið allt og þá geta ráðherrar einfaldlega tekið þetta af ráðstöfunarfé sínu. Þar eru hæg heimatökin. (Gripið fram í.)