138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

sameining háskóla.

26. mál
[14:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég held að það verði að undirstrika það að þessi fyrirspurn er sett fram með það í huga að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er fulltrúi flokks sem hefur ekki beint talað fyrir sjónarmiðum samkeppni á sviði háskólamála, á sviði rannsókna og vísinda, heldur miklu frekar talið það rétt fram til þessa að það væri ákveðin einsleitni í gangi þegar kemur að rekstri. Þessi sjónarmið hafa verið uppi af hálfu talsmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sölum þingsins fram til þessa. Þess vegna fagna ég sérstaklega þeim tóni sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra leggur inn í þessa umræðu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir háskólasamfélagið að vita að það er stuðningur úr ráðuneytinu til þess að hér verði aukin samvinna, hvort sem það er á sviði rannsókna, vísinda eða kennslu, en að það sé ekki misþyrming af hálfu ráðuneytisins í þá veru að hér verði bara eitt ríkisháskólasamfélag. Fjölbreytnina verðum við að varðveita. Við verðum að halda áfram að setja mjög strangar kröfur þegar kemur að gæðum í rannsóknum og kennslu og við höfum styrkt okkur þar.

Við verðum líka að átta okkur á því að bæði Háskólinn í Reykjavík en ekki síður Háskóli Íslands hafa mjög sótt í sig veðrið á undanförnum árum, vissulega í gegnum rannsóknasamninga o.fl., en þeir hafa í gegnum m.a. Bologna-ferlið, í gegnum alls konar gæðamöt o.fl., styrkt stöðu sína. Ég held að með tilkomu bæði Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors og Svöfu Grönfeldt hafi ákveðin sérstaða en líka mikill metnaður byggst upp í háskólasamfélaginu Við eigum að nýta hann en ekki stuðla að einsleitni í háskólasamfélaginu.

Ég er hins vegar eindregið sammála hæstv. menntamálaráðherra um að við eigum að skoða sameiningar þvert yfir t.d. ríkisháskólana. Hæstv. menntamálaráðherra talaði um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri (Forseti hringir.) og Háskóla Íslands. Ég held að það sé sjálfsagt og eðlilegt að sú leið verði skoðuð með það m.a. í huga að styrkja og efla svið náttúruvísinda innan Háskóla Íslands og Hvanneyrar.