138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

sameining háskóla.

26. mál
[14:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Reyndar er það trú mín að innan háskólasamfélags sé alltaf samkeppni. Það snýst mjög mikið um samkeppni á þessu sviði og ekki síst þegar kemur að rannsóknum þar sem fólk sækir í samkeppnissjóði. Ég hef reyndar alltaf verið talsmaður fyrir því að efla þá því að ég tel að þeir snúist að vissu leyti um bestu mælikvarðana í rannsóknum, jafningjamat og að meta rannsóknir út frá hverju verkefni fyrir sig. Ég held að það þurfi því ekki að koma neinum á óvart.

Samkeppni háskólanna hefur að miklu leyti reyndar snúist um nemendur og þreyttar einingar. Það sem ég held að skipti mestu máli er að samkeppnin á auðvitað að snúast um að ná sem bestum árangri og nemendafjölgunin er ekki eini mælikvarðinn á það. Hins vegar hef ég skynjað það innan úr háskólasamfélaginu að það er mikill vilji, það má segja að skólarnir hafi auðvitað markað sér sérstöðu, hver og einn, en vilji er til að efla sérstöðuna á hverjum stað en um leið reyna að nýta það saman sem unnt er að nýta saman. Það er auðvitað hagkvæmni sem við getum séð í því, ekki síst hvað varðar umbúnað og aðbúnað skólastarfs þar sem skólarnir hafa núna mikinn vilja til að reyna fremur að samnýta og vinna saman en um leið viðhalda því sem við getum kallað faglega sérstöðu.