138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

fækkun opinberra starfa.

35. mál
[14:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hvorki í forsendum fjárlagafrumvarps né annars staðar hjá hinu opinbera er að finna einhver tilgreind töluleg áform eða upplýsingar um fækkun opinberra starfa, hvorki á landsbyggðinni né á höfuðborgarsvæðinu né yfirleitt. Slíkar tölur er ekki hægt að setja fram, forsendurnar til þess liggja ekki fyrir. Það er ljóst að mikill sparnaður verður að eiga sér stað og mikil aðhaldskrafa er sett á opinberan rekstur. Það þekkja hv. þingmenn, bæði úr þeirri skýrslu sem hér var lögð fram um áform í ríkisfjármálum og aðgerðir til að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum á tilteknu árabili, sem og í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu og annars staðar er þetta að finna. Þar er líka að finna upplýsingar um viðamikla endurskipulagningu á opinberri þjónustu með það markmið í huga að ná fram sparnaði með skilvirkni í ríkisrekstrinum, með sameiningu stofnana, með endurskoðun verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, einfaldari stjórnsýslu, sameiningu fleiri þátta opinberrar þjónustu á sama stað, jafnvel ekki bara hjá ríkinu heldur líka hjá sveitarfélögunum. Þar hafa menn horft á norska fyrirmynd þar sem þetta hefur verið gert með ágætum árangri víða í byggðum Noregs.

Það er alveg ljóst og menn verða að vera hreinskilnir hvað það varðar að það er ekki hægt að gefa annars vegar út fyrirmæli um slíkar aðgerðir og ætla mönnum það mikla verkefni að ná þessum sparnaði og hagræðingu í rekstri og hins vegar að hvergi komi til fækkunar starfa. Það er ekki hægt að gefa neitt slíkt loforð. Það er alveg ljóst að eitthvað mun störfum fækka. Því miður. Það verður ekki undan því komist.

Hitt er alveg jafnljóst að þær vinnureglur og sú stefna sem hafa verið mótaðar og nú er unnið eftir og verið er að kynna í ráðuneytum og stofnunum miða að því að ná þessum árangri eins og nokkur kostur er án beinna uppsagna. Það er viðmiðunin. Leiðarljósin í sparnaðaraðgerðunum er að ná niður t.d. launakostnaði með því að draga úr yfirvinnu og aukagreiðslum, með því að jafnvel stytta vinnuviku þar sem menn ná saman um slíkt. Ég hef fengið dæmi um það þar sem menn eru núna farnir að vinna af sér föstudaginn að hluta til og taka síðan afganginn sem launalaust viðbótarleyfi í samkomulagi við starfsmenn viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Það eru ýmsar slíkar leiðir sem nú eru farnar. Það er mjög víða viðmiðun að ráða ekki í stöður sem losna, þá þarf ekki að segja upp fólki, en það er reynt að spara með því að ráða ekki í stöður sem losna ef þess er nokkur kostur. Sums staðar er verið að skoða hvað fólk sem á orðið fullan eftirlaunarétt getur flýtt áformum sínum um að fara á eftirlaun og þá eru störfin til staðar handa hinum sem eru yngri að aldri.

Þetta er unnið í nánu samstarfi við m.a. Félag forstöðumanna opinberra stofnana sem hefur lagt vinnu í þetta, fundað um þetta og heitir góðu samstarfi fyrir sitt leyti. Ég leyfi mér að fullyrða það miðað við þá fundi sem ég hef sótt og þau samtöl sem ég hef átt að alls staðar er ríkjandi það viðhorf að reyna að ná þessum árangri án þess að til beinna eða umtalsverðra uppsagna þurfi að koma eins og nokkur kostur er. Enginn forstöðumaður opinberrar stofnunar segir upp starfsfólki sínu að gamni sínu. Það er ekki þannig, hv. þingmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. Það er öllum ljóst hvernig ástandið er. Það er öllum ljóst að núna eru störf ekki á lausu. Ég held að ég geti fullyrt að það er reynt að vinna þetta af sem allra mestri tillitssemi við þessar erfiðu aðstæður og reynt að verja störfin, en að sjálfsögðu er ekki í öllum tilvikum hægt að ná fram þeirri hagræðingu sem endurskipulagning, sameining og breyttar áherslur fela í sér án þess að í einhverjum tilvikum komi þar til fækkunar starfa og jafnvel í einhverjum tilvikum til beinna uppsagna eins og við einfaldlega vitum. Það er í raun óumflýjanlegt, t.d. ef niðurstaðan verður einhvers staðar sú að leggja hreinlega af einhverja þætti ákveðinnar starfsemi, loka einingum og annað slíkt. Þá er kannski bara alls ekki til staðar svigrúm til að færa menn til eða bjóða mönnum störf annars staðar.

Í gegnum þetta erfiða ferli verðum við að ganga og erum að ganga. Það er ekki annar kostur í boði en sá og að reyna að gera það eins manneskjulega og vel og nokkur kostur er við núverandi aðstæður.