138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

aðsetur embættis ríkisskattstjóra.

36. mál
[15:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég frábið mér, þó að ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra út í opinber störf o.fl., að ég sé að gera það af illum hug eða ætli hæstv. ráðherra það að starfa af illum hug. Ég er einfaldlega ósammála hæstv. ráðherra þegar kemur að þessum áherslubreytingum. Hæstv. ráðherra getur ekkert gert mér það upp að ég telji að hann vinni vísvitandi þjóðinni ógagn. Hvurs lags málflutningur er þetta?

Þegar hæstv. ráðherra talar um að það sé ágætur ríkisskattstjóri að störfum í landinu — og ég er ekki að segja neitt annað — bendi ég á að það eru líka ágætir skattstjórar sem vinna vítt og breitt annars staðar um landið. Ég ætla ekki hæstv. ráðherra að hann hafi verið að bera einhverjar brigður á störf þeirra, síður en svo. Það er einfaldlega margt hæft starfsfólk að störfum í þessu kerfi. Það hefur sagt mér, fleiri en einn og fleiri en tveir, að það er óvisst um framtíð sína, um framtíð skrifstofa sinna. Hvað verður um skrifstofuna á Ísafirði? Hvað verður um skrifstofuna í Vestmannaeyjum? Hvað verður um skrifstofuna á Siglufirði? Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um það að starfsfólk á þessum skrifstofum er mjög óttaslegið um framtíðina. Munu þeir embættismenn, þeir skattstjórar sem eru á þessum skrifstofum, halda áfram að vinna á þessum skrifstofum, þá sem skrifstofustjórar eins og hæstv. ráðherra nefndi hér? Ég er einfaldlega að reyna að kalla fram svör frá hæstv. ráðherra. Og hæstv. ráðherra má ekki líka það svo illa að við þingmenn stöndum upp og spyrjum spurninga. Til þess eru fyrirspurnatímar hér.

Þess vegna stend ég hér, vegna þess að margt fólk og mörg byggðarlög sjá margt óljóst í þessum fyrirætlunum ráðherrans. Meðal annars þess vegna er þessi fyrirspurnatími gerður, til að maður geti notað tíma sinn hér með því að spyrja spurninga, vonandi gagnlegra. Ég er svo sannarlega ekki hér í einhverjum illum tilgangi eins og hæstv. ráðherra gaf í skyn áðan.