138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

Skógrækt ríkisins.

43. mál
[15:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Eðlilega er búið að ræða mikið hér í dag um þær fyrirætlanir sem ný ríkisstjórn hefur á prjónunum, sérstaklega þegar kemur að umhverfi ríkisrekstrarins og með hvaða hætti menn ætli að standa að málum í framtíðinni. Á undangengnum árum hefur verið mikil umræða um Skógrækt ríkisins sem hefur haft höfuðstöðvar sínar á Egilsstöðum um langt árabil, alveg frá upphafi 10. áratugarins. Gleðilegt er að minnast þess að það var hv. þm. Jón Kristjánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem lagði fram þingsályktunartillögu á sínum tíma um að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins yrðu þar eystra. Því er ekki að leyna að á undangengnum árum hafa ýmsir draugar verið á ferðinni þegar kemur að sjálfstæði þessarar stofnunar. Mikið hefur verið rætt um það á undangengnum árum að sameina jafnvel Skógrækt ríkisins og Landgræðsluna og einhverjar raddir hafa verið í þá átt að hugsanlega mundu höfuðstöðvar Skógræktarinnar þá flytjast búferlum, þ.e. suður yfir heiðar.

Nú er nýr umhverfisráðherra tekinn til starfa sem ég óska góðs gengis í vandasömum störfum. Það er mikilvægt að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja um málefni Skógræktarinnar. Við höfum mörg hver á undanförnum árum á vettvangi þingsins talað fyrir ágæti þessarar stofnunar sem hefur staðið mjög vel að málum í uppbyggingu skógræktar í landinu og gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Við höfum mörg viljað standa vörð um að það sjálfstæði yrði virt og að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins verði áfram á Austurlandi.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort það sé svo og hvort í undirbúningi sé að sameina Skógrækt ríkisins einhverri annarri stofnun, flytja hana jafnvel burt af Austurlandi. Ef svo yrði, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, væri það enn ein blaut tuska framan í landsbyggðina rétt eins og það þegar við höfum rætt um fækkun mikilvægra stofnana á landsbyggðinni. Ég vil seint trúa því að hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir slíkum breytingum. Því vonast ég eftir jákvæðu svari í þeim efnum, að sjálfstæði Skógræktarinnar á Egilsstöðum verði tryggt og að starfsemin haldi þar áfram eins og hún hefur verið á undangengnum árum og skartað miklum blóma.