138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

Skógrækt ríkisins.

43. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ekki get ég sagt að ég fagni þessu svari því það var síður en svo afdráttarlaust. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að vera í góðu samráði og samstarfi við þingmenn sem þekkja líka vel til þeirrar stofnunar sem hér um ræðir og sýna þinginu ákveðinn samvinnuvilja þegar kemur að þessum mikilvægu málum.

Sá sem hér stendur hefur komið upp einu sinni sem oftar í dag og yfirleitt er það stimpillinn sem sá sem hér stendur fær vegna þeirrar fyrirspurnar að það sé eins og hann vilji ekki breyta neinu. Að sjálfsögðu er það ekki þannig, við þurfum að breyta og grípa til aðhalds í ríkisrekstri.

Ég spyr líka af því hæstv. ráðherra nefndi byggðasjónarmið — og fagna því að hún skyldi nefna þau sérstaklega — hvort það eigi bara að vera ein leið í þessum efnum. Nú skil ég hæstv. ráðherra þannig að hún hafi ekki útilokað að einfaldlega loka höfuðstöðvum þar eystra, þ.e. að flytja höfuðstöðvarnar suður yfir heiðar. Hún hefur ekki útilokað það. Við höfum líka séð það með sýslumenn, héraðsdómstóla, skattstjóra o.fl.

Nú varpa ég boltanum yfir til hæstv. ráðherra og helst ríkisstjórnarinnar allrar: Er þetta einn árfarvegur, bara ein leið? Kemur ekki til greina að efla starfsemina á landsbyggðinni í einstökum greinum? Ég spyr. Mér finnst mjög mikilvægt að við viðhöfum byggðasjónarmið í þessu, því þótt það sé kreppa og erfiðleikar í íslensku samfélagi vil ég minna hæstv. ráðherra á að gríðarleg kreppa og miklir samdráttartímar hafa verið á landsbyggðinni á undangengnum 20–30 árum. Þar hefur opinberum störfum fækkað jafnt og þétt. Við verðum að hafa það í huga og miðað við þau svör sem ég hef fengið hér í dag þegar kemur að því hvort ekki komi til greina að staðsetja eitthvað af opinberu þjónustunni, þ.e. höfuðstöðvunum, á landsbyggðinni, hef ég því miður ekki fengið jákvæð skilaboð. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessi mál vel og sérstaklega byggðasjónarmiðin.